Ólafur hvíli sig utan stóls.

Greinar

Veruleg breyting varð á starfsháttum forsætisráðherra um síðustu páska. Þá hætti hann að stjórna ríkisstjórninni með harðri hendi og tók í þess stað að stjórna henni alls ekki neitt. Við þennan skort á verkstjórn býr ríkisstjórnin enn.

Fram eftir vetri stjórnaði Ólafur Jóhannesson eins og hann hefði tögl og hagldir í ríkisstjórninni. Stundum hallaðist hann á sveif með Alþýðubandalaginu og stundum með Alþýðuflokknum. Hafði hann jafnan sigur í hverju máli.

Þá lét hann sér ekki bregða við að snúast gegn sjónarmiðum flokksbræðra sinna í ríkisstjórn og á þingi. Hann naut nægilegrar virðingar til að komast upp með þetta. Talið var, að enginn flokksleiðtogi á landinu væri jafnlítið umdeildur.

Hámarki náði þessi stjórnsemi, þegar Ólafur Jóhannesson kastaði burt efnahagstillögum, sem ráðherrar allra stjórnarflokkanna höfðu barið saman með ærnu erfiði. Í staðinn flutti hann einn sitt Ólafsfrumvarp og fékk það staðfest á alþingi. Þá varð vegur forsætisráðherra mestur.

Síðan hefur Ólafur Jóhannesson glutrað niður verkstjórn og frumkvæði. Sagt er, að hann sé ekki við góða heilsu. Og óneitanlega var hann mjög þreytulegur að sjá síðustu daga alþingis í vor.

Engar staðfestingar hafa fengizt á þessu heilsuleysi, enda eru slík mál talin til feimnismála hér á landi. Í nágrannalöndunum er heilsufar landsfeðra hins vegar verulegt áhyggjuefni á opinberum vettvangi, enda mikið í húfi.

Fyrir flokksþing Framsóknarflokksins kvisaðist út, að Ólafur væri að hugleiða, hvort hann skyldi hætta formennsku í flokknum. Steingrímur Hermannsson var eldfljótur að grípa boltann á lofti og sagðist vera í kjöri, ef Ólafur hætti.

Með yfirlýsingu Steingríms rann frumkvæðið í flokknum ósjálfrátt í hendur honum. Ekki er enn ljóst, hvort Ólafur var í rauninni að hugsa um að hætta eða hvort hann var að tefla innanflokksskák í von um bænarskrár um framlengda formennsku. En Steingrímur skauzt á meðan í formannsstólinn.

Með frumkvæðinu í flokknum fór líka frumkvæðið í ríkisstjórninni. Í þeirri landsfrægu stofnun deila menn í sumar jafnhart og í vetur. Ekki verður þar vart handbragðs Ólafs frekar en hann væri ekki viðstaddur á fundum ríkisstjórnarinnar, ef frá er skilin neitun hans á að setja bráðabirgðalög um vísitöluþak.

Undanfarnar vikur hafa annir verið miklar í ríkisstjórninni vegna greiðsluhallans á ríkissjóði og verð- hækkana á olíu. Deilurnar í ríkisstjórninni um þessi mál hafa endurspeglazt í fjölmiðlum, svo að þjóðin veit um ágreiningsefnin.

Í vetur, sem leið, sat Ólafur Jóhannesson við enda ráðherraborðsins og stýrði verkum, unz niðurstöður fengust. Nú situr hann við enda borðsins án þess að veita neina verkstjórn. Enda fást engar niðurstöður og gatinu á ríkiskassanum hefur verið frestað til 1. september.

Árstapið á ríkissjóði virðist ætla að verða 5-10 milljarðar. Fjármálaráðherra neitar réttilega að afhenda peninga, sem ekki eru til, í hendur eyðslustofnana, er farið hafa langt út fyrir mörk fjárlaga og eru um það bil að verða gjaldþrota.

Á sama tíma eru ráðherrarnir sammála um það eitt, að þeir geti ekki náð samkomulagi um lausn fyrr en í ágústlok.

Við slíkar aðstæður duga feimnismálin ekki lengur. Sé Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra ekki við góða heilsu, á hann að víkja úr sæti, að minnsta kosti um stundarsakir, og fá sér góða hvíld. Hitt væri skortur á ábyrgð að sitja áfram í mesta valdastól þjóðarinnar án þess að geta það.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið