Tvö sjónarmið togast á í fjármálum dagheimila og leikskóla. Bæði sjónarmiðin eru út af fyrir sig rétt, en líta þó hvort um sig aðeins á aðra hlið málsins.
Sumir telja leikskóla og dagheimili vera mikilvægan þátt í menntun þjóðarinnar. Þess vegna beri ekki að láta foreldra greiða allan kostnað við reksturinn. Þeir segja jafnvel, að skólagjöld á þessu stigi “menntakerfisins” eigi ekki fremur rétt á sér en á öðrum og síðari stigum þess.
Aðeins mestu afturhaldsseggir andmæla menntunargildi leikskóla, þar sem börnin eru hálfan daginn. Þeir eru nokkru fleiri, sem telja dagheimili neyðarbrauð. En meirihluti manna er alténd þeirrar skoðunar, að á þessum stofnunum læri börnin sumt, sem þau mundu síður gera í mörgum heimahúsum.
Aðrir telja dagheimili og leikskóla vera mikilvægan þátt í möguleikum foreldra til að afla sér meiri tekna en ella. Þess vegna beri foreldrum, sem slíkra forréttinda njóta, að greiða allan rekstrarkostnaðinn.
Í reynd er verulegur skortur á leikskólum og dagheimilum. Sumir njóta þessara forréttinda, en aðrir ekki. Það er því eðlilegt, að margir telji hina heppnu foreldra eiga að greiða þennan tilkostnað við öflun viðbótartekna.
Mjög erfitt er að bera þessi tvö sjónarmið saman til að skera úr um, hvort sé réttara. Hitt er auðveldara að sjá, að síðara sjónarmiðið ræður gerðum íslenzkra sveitarfélaga, þótt afturhaldssamir sveitarstjórar séu á öðru máli.
Logi Kristjánsson, bæjarstjóri í Neskaupstað, hefur í tölum sýnt fram á hinn mikla skatttekjuhagnað hins opinbera af byggingu og rekstri leikskóla og dagheimila. Útreikningar hans hafa hrakið hina áður útbreiddu skoðun, að rekstur þessara stofnana sé arðsemislaust gustukaverk af hálfu sveitarstjórna.
Sá galli er á gjöf Njarðar, að ríkið fær stærri hluta hagnaðarins en sveitarfélögin, sem bera hitann og þungann af rekstri dagheimila og leikskóla. Er hér um að ræða enn eitt dæmið um óeðlilega tekju- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Einnig er vafasamt, hvort reikna eigi allar útsvarstekjur af tekjulægri maka til hagnaðar sveitarfélags af rekstri þessara stofnana. Töluverðan hluta þessara tekna mundu sveitarfélögin fá, þótt þau rækju ekki dagheimili og leikskóla.
Rekstrarkostnaður dagheimila er nú 36.000- 45.000 krónur á barn á mánuði og leikskóla um 12.000.-15.000 krónur á barn á mánuði, að stofnkostnaði meðtöldum. Ekki er ljóst, hve mikinn hluta af þessu sveitarfélögin þurfa að fá frá foreldrum til að komast slétt út úr peningadæminu. En ekki er fráleitt að meta hlutann á 60%, svo sem venja var, unz sveitarstjórnarmenn á Hellu æstu upp afturhaldsmenn í öðrum sveitarstjórnum.
Með 60% greiðslu ættu sveitarfélög að græða á byggingu og rekstri þessara stofnana. Og þá er ekkert tillit tekið til annars sjónarmiðsins, sem nefnt var í upphafi, – að hið opinbera axli ábyrgð á þessum menntamálum sem öðrum í landinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið