Árin bætast við eitt af öðru. Fyrir skömmu varð Dagblaðið fjögurra ára og í fyrradag hélt það fjórða aðalfundinn frá stofnun þess. Á fjórum árum hefur margt breytzt. Blaðið hefur vaxið úr grasi og orðið að traustu fyrirtæki.
Bættur hagur auðveldar Dagblaðinu hlutverk óháðrar og frjálsrar blaðamennsku í forpokuðu kerfi flokksrekinnar og ríkisrekinnar fjölmiðlunar í landinu. Blaðið er nú betur í stakk búið en nokkru sinni áður til þessa verkefnis.
Undanfarin misseri hafa einkennzt af bættri rekstrarfjárstöðu Dagblaðsins. Byrjunarvandamálin hafa rýrnað og horfið hvert á fætur öðru. Um langt skeið hefur blaðið skilað fullum afskriftum og hagnaði.
Samt er þessi leið torsótt eins og fyrri daginn. Ellefu milljón króna afskriftir og einnar milljón króna hagnaður er ekki hátt hlutfall af rúmlega 700 milljón króna veltu. Við vildum geta gengið hraðar götuna fram eftir vegi.
Aukið fjárnagslegt sjálfstæði eflir enn möguleika Dagblaðsins á að þjóna lesendum sínum sem almennt upplýsinga- og fréttablað og sem kastljós inn í lokað valdakerfi landsins. Enn má margt gera betur.
Dagblaðið þarf á því að halda, að lesendur þess aðstoði við að auka sölu þess og lestur. Þeim mun fleiri, sem leggja hönd á plóginn með slíkum hætti, þeim mun betri þjónustu getur blaðið veitt lesendum.
Aðeins er ár síðan Dagblaðið lenti í afar hættulegri stöðu. Þá ákváðu yfirvöld að skammta dagblöðum verð og bæta flokksblöðunum það upp með auknum styrkjum bakdyramegin. Þetta var tilræði við prentfrelsi í landinu.
Sem betur fer varð þessari árás hrundið í dómskerfinu. Málatilbúnaður stjórnvalda ónýttist. Dagblaðið fékk að halda því verði, sem lesendur vildu greiða fyrir það. Það varð ekki að ölmusumanni ríkisins, eins og öll hin dagblöðin.
Um þetta sagði Björn Þórhallsson, stjórnarformaður Dagblaðsins, á aðalfundinum: “Það hlýtur að nægja ríkisvaldinu að halda úti með styrkjum þeim blöðum, sem fólk vill ekki lesa, þótt það reyni ekki líka að hefta eðlilegan framgang hinna.”
Á undanförnum misserum hefur Dagblaðið ennfremur unnið annan sigur jafn mikilvægan. Það var, þegar óháð sölu- og lestrarathugun á vegum auglýsingastofanna sannaði, að Dagblaðið var í öðru sæti blaða landsins, langt á undan hinum fjórum.
Þeim áróðri hafði áður verið haldið fram með takmörkuðum árangri, að Dagblaðið ýkti upplag sitt og sölu. Samt fengust aðeins Dagblaðið og Morgunblaðið til að skrifa undir samkomulag um upplags- og sölukönnun á vegum Verzlunarráðs.
Dagblaðskönnun Hagvangs sýndi fram á, að söluupplýsingar Dagblaðsins voru réttar og margra annarra blaða rangar. Þessi sönnun varð til þess að auka verulega auglýsingatekjur blaðsins. Hún hefur eflt blaðið fjárhagslega.
Hitt skiptir þó sennilega meira máli, að hér eftir verður treyst upplýsingum um útbreiðslu og sölu Dagblaðsins, en ekki tekið mark á öðrum blöðum, sem vís hafa orðið að röngum upplýsingum. Þessu fylgir aukinn trúnaður á öðrum sviðum.
Eitt vandamál fylgir Dagblaðinu enn. Sumir trúa enn endurteknum áróðri stjórnmálamanna og embættismanna um, að Dagblaðið hafi rýrt virðingu þeirra með því að stuðla að opnun þjóðfélagsins.
En Dagblaðið hefur aðeins reynt að sýna þjóðinni á bak við tjöldin. Hafi valdamenn ekki þolað kastljósið, eru þeir sjálfir ábyrgir fyrir rýrðri virðingu sinni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið