Undanfarna daga hefur mátt sjá ýmis dæmi um, hversu illa Morgunblaðið er úti að aka í þjóðmálum á Íslandi. Líkja má forustugreinum og Reykjavíkurbréfum blaðsins við leikhús fáránleikans, slitið úr tengslum við þjóðfélagið.
Framlág útkoma Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í prófkosningu Sjálfstæðisflokksins og hrun ýmissa sjónarmiða flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnun hafa komið Morgunblaðinu svo úr jafnvægi, að það lætur sem heimurinn hafi staðið Í stað.
Morgunblaðið hrósar forsætisráðherra ákaft fyrir að lýsa frati á niðurstöður skoðanakönnunar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fjölyrðir blaðið mjög um hugrekki hans. Það segir vera í verkahring stjórnmálamanna að móta almenningsálitið en ekki að fylgja því.
Sjaldan eða aldrei hefur málgagn stjórnmálaflokks sagt fylgismönnum hans jafn skýrt, að þeir séu fávitar, sem ekkert mark sé takandi á. Má helzt ráða af Morgunblaðinu, að skoðanir séu því réttari, sem þær hafi minna fylgi og því rangari, sem þær hafi meira fylgi.
Fyrirlitning blaðsins á lýðræði fær útrás í fleiri myndum. Það talar um “öngþveiti” og “ógeðfelldar brautir” í prófkosningu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík – til þess að grafa undan þessari merku tilraun til að efla lýðræði innan stjórnmálaflokka.
Í rauninni hefur komið í ljós í prófkosningum stjórnmálaflokka, að fjármagnsaðgangur hefur ekki orðið mönnum til framdráttar. Margir þeir féllu, sem auglýstu sig með miklum tilkostnaði. Og mest varð fall þess, sem mest var auglýstur.
Nokkrir frambjóðendur, sem náðu góðum árangri í prófkosningum að undaförnu, hafa birt reikninga yfir kosningabaráttu sína. Kemur þar í ljós, að um mjög lágar upphæðir er að ræða. Og sá, sem mestan fékk sigurinn, varði ekki einum eyri í kosningabaráttu.
Ýmsir forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa áttað sig á, að viðhorf almennra kjósenda flokksins til manna og málefna er nokkuð annað en Morgunblaðið hefur hingað til getað talið mönnum trú um. Geir Hallgrímsson og nokkrir fleiri félagar og áhangendur flokkseigendafélagsins neita hins vegar að viðurkenna staðreyndir.
Ritstjórar Morgunblaðsins eru vanir að ráða ferðinni. Áratugum saman hefur blaðið haft aðstöðu til að stjórna Sjálfstæðisflokknum og segja kjósendum hans, hvaða skoðanir og stefnu þessir sömu kjósendur hafi.
Nú er skyndilega komið í ljós, að pólitísk áhrif Morgunblaðsins eru svipuð og fjölskyldublaðsins Vikunnar, eins og einn kjallaragreinarhöfundur hefur komizt svo vel að orði. Heilsíðu stórskotaárás leiðara Morgunblaðsins á hina svokallaða “aronsku” á fyrsta prófkjörsdegi hafði ekki hin minnstu áhrif.
Morgunblaðinu finnst þessi vandamál of hræðileg til að geta verið sönn. Lausn blaðsins felst annars vegar í því að grafa höfuðið í sandinn og láta eins og ekkert hafi í skorizt, og hins vegar í því að segja kjósendum flokksins, að þeir séu fávitar með ógeðfellda hegðun.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið