Hæfilegt jafnaðargeð er nauðsynlegt öllum þeim, sem lenda í mótlæti og erfiðleikum. Undir slíkum kringu.mstæðum gerir það illt verra að láta skapið hlaupa með sig í gönur. Þá framkvæma menn oft eitthvað, sem nánari og rólegri athugun mundi leiða í ljós, að betur væri ógert.
Taugaveiklun aðstandenda Vísis út af velgengni Dagblaðsins hefur að undanförnu brotizt út á síðum Vísis í persónulegu skítkasti og margvíslegum áburði um saknæmt athæfi. Þeir, sem harðast hafa fengið hríðina, hafa þegar svarað og sýnt fram á, að getsakir aðstandenda Vísis hafa ekki við rök að styðjast.
Bæði höfundum og lesendum Dagblaðsins finnst hvimleitt að eyða dýrmætu rúmi blaðsins í þras við menn, sem sérhæfa sig í örvæntingarfullum tilraunum til að hnekkja mannorði keppinauta sinna. Dagblaðsmenn hafa öðrum hnöppum að hneppa. Þeir eru að vinna að útkomu dagblaðs, sem fólk vill lesa.
Sú rangfærsla, sem oftast hefur verið endurtekin í reiðilestri aðstandenda Vísis, eru fullyrðingar leiðara blaðsins um, að minnihlutinn í Reykjaprenti, útgáfufélagi blaðsins, hafi reynt að ná fjármálalegum tökum á fyrirtækinu.
Engin slík tilraun hefur nokkru sinni verið gerð af hálfu minnihlutans. Einu hlutabréfin, sem ólöglega hafa gengið milli manna í félaginu, eru nokkur hlutabréf, sem núverandi formaður Reykjaprents aflaði sér fyrir mörgum árum.
Minnihluti Reykjaprentsmanna var einfaldlega hrakinn á brott með offorsi og knúinn til að stofna nýtt dagblað, sem hefur nú þegar meiri sölu en Vísir hafði fyrir hrunið. Vinsældir Dagblaðsins byggjast meðal annars á því, að allir helztu starfsmenn Vísis og minnihluti Reykjaprentsmanna tóku höndum saman um stofnun blaðs, er gæti fengið að vera í friði fyrir flokka- og hagsmunapólitik.
Með ofurkappi sínu hefur aðstandendum Vísis tekizt á aðeins einu síðsumri að stórskaða blað, sem aðrir menn höfðu byggt upp á mörgum árum. Hafi meirihlutamenn Reykjaprents áttað sig á þessari staðreynd núna, eiga þeir ekki að láta málið koma sér úr jafnvægi. Persónuníð getur aldrei komið í stað heiðarlegrar samkeppni.
Dagblaðið er prentað í Blaðaprenti í skjóli Járnsíðu, félags, sem stofnað var með vitund og vilja bæði meirihluta og minnihluta Reykjaprentsmanna. Ef skipun og starfshættir stjórnar Reykjaprents væru með jafnábyrgum og löglegum hætti og í stjórn Járnsíðu, mætti meirihluti Reykjaprentsmanna vel við una.
Aðstandendur Dagblaðsins telja meirihluta stjórnar Reykjaprents hafa beitt sig margvíslegum órétti. Að svo miklu leyti, sem þeir kæra sig um að elta ólar við það, munu þeir reka mál sín á réttum vettvangi, fyrir dómstólunum.
Þeir kæra sig ekki um að fara að vaða um síður dagblaða eins og naut í flagi. Það verður eftirlátið öðrum, sem til þess hafa geð. Þeir, sem vinna að framgangi Dagblaðsins, horfa fram á veginn og vilja verja tíma sinum til jákvæðra starfa í þágu lesenda blaðsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið