Öflum réttra talna

Greinar

Frjálslyndi manna í meðferð talna um upplag dagblaða er orðið mjög hvimleitt. Aðstandendur sumra blaða gefa upp fyrir sitt leyti svimandi háar tölur, sem eru allt að ?% hærri en réttar tölur. Jafnframt gefa þeir upp of lágar tölur um önnur dagblöð.

Þessi skáldskapur með tölur hefur takmarkað gildi, því að flestir þeir auglýsendur, sem mikið nota dagblöð, gera sér nokkuð nákvæma grein fyrir misjöfnu auglýsingagildi blaðanna. Þeir fara eftir eigin reynslu og taka ekki mark á skrumi aðstandenda dagblaðanna.

Í öllum nágrannalöndum okkar eru tölur sem þessar undir nákvæmu eftirliti óvilhallra aðila. Þar er unnt að fá traustverðar tölur um prentað upplag, tölu seldra eintaka, fjölda lesenda á hvert eintak og um skiptingu lesendahópsins milli kynja, kynslóða og tekjuhópa.

Fyrir tæpu ári reyndu auglýsingastofurnar að koma á samstarfi við dagblöðin um þetta. Því var vel tekið og skipuð nefnd í málið. Síðan gerðist ekkert, málið sofnaði á þeim vettvangi. Það skal og tekið fram, að fulltrúi frá Dagblaðinu var ekki skipaður í þessa nefnd, þótt aðstandendur blaðsins væru manna mest búnir að fagna skipun slíkrar nefndar.

Nú hefur Verzlunarráð Íslands tekið upp þráðinn. Það hefur skrifað dagblöðunum og leitað staðfestingar þeirra á, að þau vilji taka þátt í samstarfi við Verzlunarráðið um lausn á þessu hvimleiða vandamáli. Dagblaðið svaraði um hæl bréfi Verzlunarráðsins og fagnaði eindregið frumkvæði ráðsins.

Í svari Dagblaðsins stóð m.a.: “Dagblaðið vill taka þátt í samstarfi um þetta og er reiðubúið til að láta öll nauðsynleg gögn af hendi. Ég legg áherzlu á, að vandað verði til þessarar könnunar. Til dæmis verði könnuð frumgögn úr prentsmiðjum fyrir löng tímabil, þar á meðal þau gögn, sem skipting pappírskostnaðar er byggð á. Ennfremur tel ég eðlilegt, að reynt verði með statistískum aðferðum að finna, hve mikið blöðin eru lesin og af hverjum.”

Vonandi leiðir framtak Verzlunarráðs Íslands til þess, að hinar sífelldu deilur um upplag, sölu og lestur dagblaða leggist af. Og það hefur a.m.k. þegar leitt til þess, að samstarfsnefndin hefur vaknað til lífsins og haldið einn fund.

Bæði Morgunhlaðið og Dagblaðið hafa mátt sæta endurteknum fullyrðingum um, að upplag þeirra sé töluvert lægra en aðstandendur þeirra telja það vera. Þessar fullyrðingar hafa að vísu ekki umtalsverð áhrif á auglýsingamarkaðinn. Þar vita menn betur, enda eru slíkir fjármunir í húfi

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið