Margir Íslendingar hafa áratugum saman ekki kynnzt öðrum eins peningavandræðum og þeir eru í um þessar mundir. Jafnvel grandvarasta fólk, sem er laust við alla óráðsíu, á erfitt með að halda ávísanaheftum sínum á floti.
Biðstofur bankastjóra eru fullar af fólki, sem sér enga leið út úr ógöngum sínum. aðrar en bráðabirgðalausnir víxlasláttar. Þarna sitja launþegarnir við hlið vinnuveitendanna, sem eiga í enn verri ógöngum við rekstur fyrirtækja sinna.
Sumpart stafar þetta ástand á fjárreiðum íslenzkra heimila af því, að menn eiga erfitt með að laga sig að samdrætti eftir langvinna þenslu. Menn eiga erfitt með að neita sér um neyzlu,sem þeir hafa einu sinni vanið sig á.
En þetta er alls ekki eina skýringin. Peningaleysið hér er mun meira en ætla mætti, ef borið er saman við þjóðartekjurnar í heild. Þótt þjóðartekjurnar hafi minnkað nokkuð að undanförnu, eru þær enn svipaðar og í nágrannalöndunum, þar sem launatekjur og fjárráð fólks virðast vera betri en hér.
Þetta ástand magnar spennuna í kjaramálum hér á landi. Fólk skilur eðlilega ekki, að lífskjör þurfi að vera lakari hér en í nágrannalöndunum. En sem betur fer sjá menn hér líka, að fyrirtækin eru engu betur sett en almenningur, nema síður sé. Á grundvelli þessa skilnings tókst að ná alls herjarsamningum um kaup og kjör um daginn.
Íslenzk fyrirtæki eru vissulega smærri og þess vegna nokkru óhagkvæmari í rekstri en erlend fyrirtæki. Þessi byrði okkar er þó ekki eins þung og sú byrði nágrannaþjóðanna að þurfa að verja 5-10% þjóðarteknanna til varnarmála.
Hvar eru þá þjóðartekjurnar faldar?
Sökudólgurinn er ríkið, sem brennir upp fjármagn þjóðarinnar. Við erum eina lýðræðisþjóðin á Vesturlöndum, sem býr við sósíalistískt fjármálakerfi. Við höfum búið við þetta kerfi áratugum saman og mögnum það frá ári til árs.
Bankarnir geta ekki hjálpað launþegunum og vinnuveitendunum á biðstofunum. Ríkið hefur svelt bankakerfið með útgáfu spariskírteina og frystingu bankafjár í Seðlabankanum. Launþegarnir og vinnuveitendurnir geta ekki hjálpað sér sjálfir, því að hvorir tveggja eru ofskattaðir.
Ríkið er orðið að krabbameini í þjóðfélaginu. Það sogar til sín hverja þá krónu, sem það kemur auga á. Voldugustu þrýstihópar þjóðfélagsins hafa haustak á ríkinu. Þessir óseðjandi hópar verða kröfuharðari með hverju árinu og knýja ríkið til sífellt grófari örþrifaráða í útvegun fjármagns.
Þess vegna er svokölluð “samneyzla” ríkisbáknsins komin út í meiri öfgar en fámenn þjóð getur staðið undir. Þess vegna er “byggðastefna” ríkisins komin út í slíkar öfgar, að enginn hefur lengur yfirsýn yfir þær. Þess vegna er landbúnaðarstefna ríkisins orðin gersamlega óskiljanleg öllu sæmilega gefnu fólki. Þess vegna eru hinir sjálfvirku gjafasjóðir eða stofnlánasjóðir forréttindagreina þjóðfélagsins að belgja sig út á kostnað bankanna og viðskiptavina þeirra.
Vegna alls þessa er afkoma íslenzkra heimila og fyrirtækja í hættu, þrátt fyrir miklar þjóðartekjur.
Jónas Kristjánsson
Vísir