Offramleiðslan játuð

Greinar

Hið nýja landbúnaðarfrumvarp ríkisstjórnarinnar er síðbúin viðurkenning á, að of mikið sé framleitt af kjöti og mjólkurafurðum í landinu og að draga þurfi saman seglin í hefðbundnum landbúnaði.

Þetta er ekki aðeins skoðun ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið er að mestu samið af nefnd sex bænda og eins ráðuneytisstjóra. Það nýtur stuðnings Stéttarsambands bænda, Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Fyrir nokkrum árum var deilt hart um þetta mál. Þá höfnuðu stjórnvöld og talsmenn landbúnaðarins gersamlega hugmyndinni um samdrátt í landbúnaði. Þá voru talsmenn þessarar hugmyndar kallaðir “óvinir bændastéttarinnar”.

Hrakspár hinna svonefndu óvina hafa rætzt. Hin stjórnlausa framleiðsluaukning á kjöti og mjólk á ábyrgð og kostnað ríkisins hefur sprengt ríkissjóð. Útflutningsuppbætur, beinir landbúnaðarstyrkir og niðurgreiðslur búvöru eru komin upp í 14% fjárlaga.

Greinargerð hins nýja frumvarps hljómar eins og gamall leiðari upp úr Dagblaðinu. Það er kerfið sjálft, sem nú segir: “Mikill vandi steðjar að íslenzkum landbúnaði vegna framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða umfram það, sem selst á innanlandsmarkaði.”

Í greinargerðinni kemur fram, að í landinu eru nú rúmlega árs birgðir af osti og eins og hálfs árs birgðir af smjöri. Þar kemur fram, að framleiðsla kindakjöts er 50% meiri en innanlandsmarkaðurinn þolir.

Síðan segir þar: “Miklar athuganir hafa farið fram á sölumöguleikum á framangreindum afurðum erlendis og samkvæmt þeim er ekki von til, að unnt sé að selja mjólkurafurðir eða kindakjöt nema á hluta framleiðslukostnaðarverðs.”

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á fáum árum, er Dagblaðið annars vegar og kerfið og bændasamtökin hins vegur eru orðin sammála um, hvert ástandið sé. Viðurkenning á staðreyndum er fyrsta og mikilvægasta skrefið í átt til endurbóta.

Samkvæmt frumvarpinu á að heimila ráðherra að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda, þannig að sportbændur í þéttbýli og stórbændur fái minna í sinn hlut en bændur á meðalstórum fjölskyldubúum.

Líklega reyna menn að komast undan þessum ákvæðum með því að skipta stórum búum að nafninu til. Þó stendur í greinargerð, að framleiðslukvóti skuli vera bundinn við lögbýli og þá ábúendur, sem þar áttu lögheimili árið 1977. Nýbýli virðast þar með vera úr sögunni.

Samkvæmt frumvarpinu á að heimila ráðherra að greiða bændum verðbætur fyrir að draga úr framleiðslu sinni. Er talað um helmings bætur fyrir allt að 10% samdrátt. Þetta er í ætt við tillögur Dagblaðsins.

Samkvæmt frumvarpinu á að heimila ráðherra að leggja sérstakt gjald á allt innflutt kjarnföður til að reyna á þann hátt að draga úr framleiðslu. Tekjurnar á að nota til að bæta samdrátt hjá bændum og til að borga útflutning umfram uppbætur, svo og til að efla innlenda grænfóðurframleiðslu.

Allt stefnir þetta í rétta átt. Árangurinn fer svo eftir því, hvernig á málum verður haldið, því að tillögurnar eru allar í formi heimildarákvæða. Vandséð er þó, að tillögurnar samsvari hinu hrikalega ástandi, sem greinargerð þeirra lýsir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið