Ofbeitt til útflutningsbóta

Greinar

Sauðfé hefur fjölgað á Íslandi síðustu árin. Vetrarmánuðina 1973 var heildartalan 845.796. Fram til ársins 1976 hækkaði sú tala um 25.052, því að þá var heildartalan komin upp í 870.848.

Þetta jafngildir fjölgun um að minnsta kosti fimmtíu þúsund á fjalli á sumrin. Ekki eru til nákvæmar tölur um sumarfjölda sauðfjár með lömbum, en Búnaðarfélagið reiknar með, að sú. tala sé farin að nálgast tvær milljónir.

Sá maður, sem áratugum saman hefur rannsakað manna langmest beitarþol íslenzkra afrétta, Ingvi Þorsteinsson magister, telur þetta allt að þriðjungi of mikið sauðfé. Hann segir, að ofbeit valdi því, að gróðri fari hnignandi í þrettán sýslum landsins en vaxandi í aðeins tveimur.

Hann telur, að hin svokallaða þjóðargjöf til landgræðslu hafi ekki komið að tilætluðu gagni. Afréttir landsins hafi haldið áfram að versna, þótti miklu fræi og áburði hafi verið dreift úr lofti fyrir peninga þjóðargjafarinnar.

Það sem skort hefur, er skipuleg landnýting, þannig að talið væri fé inn á hverja afrétt fyrir sig eftir raunverulegu beitarþoli hennar. Í stað þess hefur þjóðargjöfin verið notuð til að fjölga sauðfé, sem hefur étið upp þjóðargjöfina og meira til.

Þessi fjölgun sauðfjár á allra síðustu. árum hefur öll farið í framleiðslu á illseljanlegum afurðum. Útflutningsuppbætur hefur orðið að auka mjög hratt. Þær voru áætlaðar 1800 milljónir í fjárlögum þessa árs, en gætu verið komnar upp í 2735 milljónir, þegar árinu lýkur.

Skattgreiðendur greiða þjóðargjöfina beint til landbúnaðarins ofan á útflutningsuppbætur og aðra beina styrki til landbúnaðar, sem nema samtals 3000 til 4000 milljónum króna á þessu ári og ofan á 5000 milljón króna niðurgreiðslur á afurðaverði landbúnaðarins.

Samtals eru þetta nærri 9000 milljónir á ári auk þess sem neytendur verða af 3000 til 5000 milljónum króna í of háu vöruverði vegna banns við innflutningi landbúnaðarafurða. Er þá meira að segja reiknað með, að neytendur greiddu allan kostnað innfluttu vörunnar óniðurgreiddan.

Þjóðargjöfin segir svo sem ekki mikið í þessa geigvænlegu hít. En óneitanlega er súrt í broti, að hugsjón gjafarinnar skuli vera svo herfilega misnotuð sem dæmið sannar.

Hörmulegast er þó, að þessi tiltölulega auðuga þjóð skuli þurfa að horfa á gróður lands síns fara til fjandans vegna hagsmuna, sem hún jafnframt er að sligast undir fjárhagslega.

Hvergi er unnt að sjá hin minnstu merki þess, að ráðherrar og alþingismenn landsins hafi áhyggjur af þessari hörmulegu þróun. Flestir aðrir en þeir gera sér þó grein fyrir, að létta verður landbúnaðinum af herðum þjóðarinnar og klæða landið á nýjan leik.

En hér á landi ræður ekki fjöldinn, heldur hagsmunahóparnir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið