Of mikið má af öllu gera

Greinar

Söluskattur er að mörgu leyti hentugur skattur. Hann skattleggur eyðsluna í þjóðfélaginu en ekki tekjuöflunina. Hann er því ekki sami hemill á framtak og tekjuskatturinn er. Auk þess eru tiltölulega góðar heimtur á söluskatti og hann dreifist af jafnaðarréttlæti á flestar vörur og þjónustu í landinu.

Á tíma viðreisnarstjórnarinnar var stefnt að því að breyta tollum smám saman í söluskatt. Sú stefna hefur haldizt, síðan vinstri stjórnin tók við. En það hefur svo gerzt á allra síðustu árum, að skattheimta ríkisins í heild hefur aukizt gífurlega, langt umfram verðbólgu, og gert tekjuskattsbyrði fólks óbærilega. Þess vegna hefur nokkuð verið rætt um að nota söluskattinn líka til að taka að nokkru eða verulegu leyti við af tekjuskattinum.

En söluskatturinn verður um síðir mjög hár, ef hann á bæði að taka við af tollum og tekjuskatti. Mjög hár söluskattur getur leitt til verri innheimtu og einnig til slæmrar samkeppnisaðstöðu íslenzkra atvinnugreina gagnvart erlendum. Ekki er ljóst, hvenær þessu marki er náð, en full ástæða er til að fara varlega í hækkun söluskatts.

Bezta lausnin er auðvitað sú að draga saman fjárheimtur ríkisins. Þær eru nú um 30% af þjóðarbúskapnum, en voru ekki nema um 20% á viðreisnarárunum. Ef fjárheimturnar væru smám saman færðar aftur í fyrra horf,væri hægt að snarlækka tekjuskattinn án þess að hækka söluskattinn á móti. Það hefði verið viðeigandi umræðuefni ríkisstjórnarinnar og deiluaðila vinnumarkaðsins að ræða slíkar leiðir.

En því miður taldi ríkisstjórnin, að kassinn sinn gæti ekki séð af neinu fé. Hún taldi þvert á móti, að þessi breyting á skattakerfinu mætti gjarna verða ríkissjóði til eflingar. Hún lagði því til, að tekjuskattur yrði lækkaður um tvo og hálfan milljarð og söluskatturinn hækkaður á móti um þrjá og hálfan milljarð. Einn milljarð ætlaði hún að hirða sjálf að launum fyrir afskipti sín af vinnudeilunni, sem nú stendur yfir.

Síðan dró hún nokkuð í land. Hún féllst á að borga til baka helminginn af þessum milljarði til að tryggja það, að lágtekjufólk hefði gagn af skattabreytingunni. Ennfremur benti hún á, að hagnaður sinn mundi ekki koma fram á þessu ári, þar sem tveir mánuðir væru þegar liðnir af því. Sú staðreynd breytir ekki því, að hagnaður ríkissjóðs af dæminu verður verulegur á næsta ári og næstu árin.

Ríkisstjórninni tókst að fá meirihluta samninganefndar Alþýðusambands Íslands til að fallast á þessar tillögur um hagnað ríkissjóðs á kostnað launþega. Má telja það einstæðan sigur ríkisstjórnarinnar og sjónarmiða hennar að geta vafið hinum grandalausu þannig um fingur sér.

Um framgang málsins á Alþingi ríkir hins vegar meiri óvissa, því að stjórnarandstaðan öll hefur lýst sig andvíga þeirri söluskattshækkun, sem er umfram lækkun tekjuskatts.

Jónas Kristjánsson

Vísir