Of lítið og verður skemmt.

Greinar

Efnahagsfrumvarp Ólafs Jóhannessonar er fyrsta markverða tilraun íslenzks forsætisráðherra í tæpa tvo áratugi til að endurreisa þjóðarhag. Síðast var það nafni hans, Ólafur Thors, sem reyndi slíkt með myndun viðreisnarstjórnarinnar.

Ólafi Thors tókst þetta fyrir tæpum tveimur áratugum. Við búum enn að viðreisn hans, þótt síðan hafi tvær vinstri stjórnir og ein hægri stjórn misþyrmt þjóðarhag eftir föngum. Ólafur Thors hafði líka einhuga ríkisstjórn að baki sér.

Ólafur Jóhannesson hefur hins vegar ekki slíkan bakhjarl. Hann varð að lokum að leggja fram einn sitt viðreisnarfrumvarp. Þótt það verði að lögum er framkvæmdin óvís. Sumpart er hún í höndum ráðherra Alþýðubandalagsins, sem vilja sum ákvæðin feig.

Til dæmis er merkasta atriðið, verðtryggður höfuðstóll lána, í höndum Svavars Gestssonar, ráðherra Alþýðubandalagsins. Samkvæmt frumvarpinu á að koma hinu nýja kerfi á fyrir árslok 1980. En Svavar getur haft ótal útvegi til að drepa málinu á dreif, ef honum og flokki hans þóknast.

Þetta atriði er meira en hálft frumvarpið. Verðtryggður höfuðstóll gerir vexti að raunvöxtum. Lán hætta að vera gjafir. Lánastofnanir hætta að vera skömmtunarstofur. Stjórnmálamenn hætta að vera skömmtunarstjórar. Með einum uppskurði er fótunum kippt undan verðbólgu og stjórnmálaspillingu.

Ef frestað verður framkvæmd þessa atriðis, stendur lítið eftir áþreifanlegt í frumvarpi Ólafs Jóhannessonar. Fyrirvarar eru á festingu ríkisútgjalda við 30% af þjóðarframleiðslu þessa árs og á festingu aukningar peningamagns við 25% á þessu ári.

Virðingarvert er ákvæðið um afnám sjálfvirkni ríkisframlaga fyrir lok þessa árs, ákvæðið um, að niðurgreiðslur geri útsöluverð ekki lægra en verð til bænda í árslok 1981, ákvæðið um eins milljarðs niðurskurð ríkisútgjalda fyrir lok þessa mánaðar, ákvæðið um bindingu fjárfestingar við 25% þjóðarframleiðslu á þessu ári, ákvæðið um viðskiptakjaravísitölu og ákvæðið um arðsemis- og kostnaðarmat opinberra framkvæmda.

Samanlagt mega öll þessi ákvæði sín samt lítils, ef ekki tekst að koma á raunvöxtum. Þar á ofan er ljóst, að ráðherrar Alþýðubandalagsins munu nota fyrirvarana til hins ýtrasta og reyna að draga önnur ákvæði á langinn. Mergurinn málsins er nefnilega sá, að Alþýðubandalagið tekur ekki þátt í viðreisn.

Ofan á allar þessar efasemdir má svo bæta því við, að efnahagsfrumvarp Ólafs Jóhannessonar er, þrátt fyrir ýmsa kosti, ekki sambærilegt við viðreisnarfrumvarp Ólafs Thors. Það spannar ekki nægilega yfir þau vandamál, sem nú kalla að. Það nær raunar yfir lítið meir en stríðið um verðbólguna.

Í frumvarpinu eru engar hugmyndir um öran samdrátt hins hefðbundna landbúnaðar, sem gleypir 26 milljarða á fjárlögum og vantar 6 milljarða til viðbótar. Á þessu sviði reynir frumvarpið ekki að spara milljarða.

Í frumvarpinu eru engar hugmyndir um að auka arðsemi fiskveiðanna í fyrra horf með því að takmarka aðgang að miðunum og byggja upp sterkari stofna. Á þessu sviði reynir frumvarpið ekki að spara tugi milljarða og græða aðra tugi milljarða.

Í frumvarpinu eru engar hugmyndir um að efla einu framtíðarvonina, iðnaðinn, til dæmis með byggingu iðngarða fyrir smáiðnað og nýjum samningum um stóriðju.

Þótt frumvarp Ólafs sé fremur gott, nær það allt of skammt og verður eyðilagt í framkvæmdinni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið