Mikla athygli vakti um árið, er sextíu valinkunnir menn skrifuðu undir áskorun um lokun sjónvarpsins í Keflavík. Þessi áskorun sextíumenninganna hafði töluverð áhrif á þeim tíma og efldi raðir andstæðinga sjónvarpsins.
Sextíumenningarnir voru heppnir, að Ólafur Ragnar Grímsson prófessor var þá ekki byrjaður að þylja vísindi sín. Hann hefði ekki verið lengi að afgreiða þá með því að benda þeim á, að þeir væru ekki nema 60 af um það bil 100.000 kjósendum og því væri ekkert mark á þeim takandi.
En hinir 170 valinkunnu framsóknarmenn, sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu um framhald á dvöl varnarliðsins, voru ekki svona heppnir. Í grein í Tímanum í dag, bendir Ólafur á, að þeir séu “einungis 170 af rúmlega 26.600 kjósendum flokksins”.
Síðan heldur Ólafur áfram með reikningsdæmi sitt, er hann fjallar um hinn furðulega mikla árangur af undirskriftasöfnun Varins lands. Hann segir eitthvað á þá leið, að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins að undanskildum ungum jafnaðarmönnum séu andvígir brottför varnarliðsins. Þessir flokkar hafi fengið um 50.000 atkvæði í síðustu kosningum og því sé eðlilegt, að undirskriftasöfnun Varins lands nái til 40.000-50.000 manna.
Þar sem ljóst er, að minnst 55.000 manns hafa skrifað undir áskorun Varins lands, væri gaman að vita, hvar Ólafur staðsetur þá 5.000-15.000 menn, sem þarna eru umfram. Líklega mundi hann telja þetta fylgisaukningu flokkanna tveggja, því að ekki eru þetta framsóknarmenn samkvæmt fyrri hluta dæmis hans.
Í rauninni er dæmi Ólafs hreint rugl. Menn mundu aðeins yppta öxlum, ef venjulegir stjórnmálamenn flyttu þjóðinni slíkt dæmi. Málið er fyrst og fremst alvarlegt fyrir þá sök, að Ólafur er prófessor í félagsfræðideild og ætti ekki að varpa rýrð á þau fræði.
Undirskriftasöfnun framsóknarmannanna sýnir alls ekki að lítið brot af flokki þeirra sé andvígt brottför varnarliðsins. Hún sýnir, að 170 manna hópur í flokknum hefur tekið saman höndum um að vara við brottförinni. Engum félagsfræðingi í heiminum nema Ólafi dytti í hug að nota þessa tölu til að skipta Framsóknarflokknum í tvennt. Enda veit Ólafur betur en hann vill vera láta, að skoðanir hinna 170 framsóknarmanna njóta mikils hljómgrunns meðal flokksbræðra þeirra.
Undirskriftasöfnun Varins lands, sem stefnir að sem mestum fjölda þátttakenda, er annars eðlis. En samt duga reikningsaðferðir Ólafs þar ekki. Útilokað er, að söfnunin hafi náð til allra kjósenda Sjálfstæðis-og Alþýðuflokksins. Þar að auki eru áreiðanlega einhverjir kjósendur þessara flokka ekki nógu áhugasamir um varnarmálin til að gerast þátttakendur í áskorun um þau, auk þess sem aðrir kjósendur flokkanna tveggja eru beinlínis fylgjandi brottför varnarliðsins.
Hinir 55.000 þátttakendur í Vörðu landi eru búnir að sýna styrk sinn. Í engu landi eru til dæmi um hlutfallslega jafnmikla þátttöku í áskorun í umdeildu máli. Þennan sannleika eiga heiðarlegir félagsfræðingar að sjá og viðurkenna.
Jónas Kristjánsson
Vísir