Óbeit á iðnaði

Greinar

Við nálgumst nú þáttaskil í iðnþróuninni. Á næstu fimm árum mun þjóðin standa eða falla með því, sem gert verður í iðnaði. Þetta viðurkenna flestir, en skilja fæstir.

Íslendingum fjölgar stöðugt, án þess að hinar hefðbundnu atvinnugreinar geti aukið við sig fólki. Í landbúnaði starfa raunar helmingi fleiri en þörf er á. Og fjöldi starfsfólks í útgerð og fiskiðnaði takmarkast af þeim afla, sem unnt og skynsamlegt er að ná.

Í rúman áratug hafa það verið viðurkennd, opinber sannindi, að iðnaðurinn yrði að taka við verulegum hluta þess fólks, sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu áratugum. En það getur hann einmitt ekki.

Íslenzkur iðnaður er aðeins á fáum sviðum samkeppnishæfur á erlendum markaði. Yfirleitt er framleiðni hans of lítil í samanburði við hliðstæðar greinar í útlöndum.

Um þessar mundir er því ekki fyrirsjáanlegt, að hann geti haldið uppi nútímalegum lífskjörum í landinu eins og sjávarútvegur og fiskiðnaður gátu til skamms tíma, meðan ofveiðin var ekki farin að hefna sín í alvöru.

Samt verður iðnaðinum að takast þetta. Við höfum ekki nema í eitt hús að venda, hús, sem allt of margir hafa þegar komið auga á. Það hús eru hin auðugu hálaunaríki heimsins, allt frá Norðurlöndum til Ástralíu, sem menn flýja til hópum saman.

Iðnkynningarárið íslenzka mátti því ekki seinna vera. Ellefta stundin er upp runnin. En það er kannski ekki nauðsynlegt að kynna iðnað fyrir almenningi. Fólkið í landinu er yfirleitt hlynnt iðnaðinum. Hið sama er hins vegar ekki unnt að segja um ráðamenn landsins á síðustu áratugum.

Iðnkynningin nær tilgangi sínum, ef hún vekur athygli óvinveittra ráðamanna á gildi og nauðsyn iðnaðar. Stjórnmálamennina má kalla óvinveitta, af því að þeir hafa hvað eftir annað, viljandi eða óviljandi, dregið taum annarra atvinnugreina og á þann hátt þrengt kosti iðnaðarins.

Þjóðhagsstofnunin viðurkennir í sérstakri skýrslu, að lánsfé er haldið frá iðnaðinum. Því er með margvíslegum aðgerðum stjórnvalda beint til hinna hefðbundnu forréttindagreina, sem fá það með sérstökum vildarkjörum.

“Þessu skipulagi hefur fylgt ósveigjanleiki í skiptingu lánsfjár milli greina og nokkurt misræmi í lánakjörum. Hvort tveggja hefur áreiðanlega hamlað gegn því, að lánsfé beindist með eðlilegum bætti til þeirra framleiðslugreina, sem til lengdar eru arðbærastar fyrir þjóðarbúið,” segir í skýrslu stofnunarinnar.

Mismununin í lánum og lánakjörum er sú leið, sem áhrifaríkast hefur haldið iðnaðinum niðri. En hugarfarið er hið sama á öðrum sviðum. Iðnaðurinn verður að borga hærri launaskatt og aðstöðugjald en aðrar greinar, svo sem viðurkennt er í framangreindri skýrslu Þjóðhagsstofnunar.

Þessu verður að linna, ekki bara bráðum, . heldur nú þegar. Iðnaðurinn þarf jafnrétti á við aðra. Hann þarf peninga til að byggja sig upp og efla framleiðni sína, svo að þjóðin búi við góð kjör og vilji ekki flýja til annarra landa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið