Eftir kosningarnar hefur formaður Alþýðuflokksins lýst því eindregið yfir, að flokkur hans hafi ekki áhuga á þátttöku í ríkisstjórn. Virðist því ljóst, að Alþýðuflokkurinn verði hvorki fjórða hjólið undir endurlífgaðri vinstristjórn, né fari í stjórn á hinum vængnum.
Þetta virðist skynsamlegt mat Alþýðuflokksins. Þótt hann hafi næstum haldið sínu í þessum kosningum, er hann enn í þeirri lægð, sem hann komst í fyrir þremur árum. Hann þarf því tíma til að sleikja sár.sin og endurskipuleggja sig með hliðsjón af framtíðinni. Hann getur varla tekið þátt í hinum óvinsælu ráðstöfunum, sem óhjákvæmilega hljóta að koma, hverjir svo sem mynda næstu ríkisstjórn.
Það er raunar ekkert sældarbrauð að standa að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í Sjálfstæðisflokknum átta menn sig vel á, að flokkurinn mundi hagnast mest á að vera áfram utan ríkisstjórnar í nokkra mánuði, meðan endurlífguð vinstristjórn ræki endahnútinn á álits- og fylgishrun sitt.
En kosningasigur Sjálfstæðisflokksins gerir honum ókleift að hugsa um sinn hag. Sigrinum fylgir mikil ábyrgð. Kjósendur vildu, að Sjálfstæðisflokkurinn tæki að sér stjórnarforustu. Því trausti getur flokkurinn ekki brugðizt, allra sízt eins og ástandið er núna í efnahagsmálum, jafnvel þótt aðeins sé um að ræða samstarf við Alþýðubandalagið eða Framsóknarflokkinn.
Samstarf við Alþýðubandalagið hlýtur að teljast ótrúlegt, þótt ekki sé nema vegna hinna gagnstæðu stefna flokkanna í varnarmálunum. Meiri líkur eru á, að samstarf geti tekizt milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Slík stjórn væri sterk á Alþingi með rúma tvo þriðju þingliðsins á bak við sig. Hún gæti sameinazt um framhald landvarna á Íslandi, útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur fyrir áramót og um stórtækar og ábyrgar aðgerðir í efnahagsmálum. En þessi atriði voru einmitt kjarninn í kosningamálum Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem þegar hefur tekizt að koma vinstri stjórninni frá.
Ef samstarf næst ekki milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, er mikill vandi á höndum. Þá gætu aukizt líkurnar á enn einum kosningunum á þessu ári og eru þær þó orðnar nægar fyrir.
Hugsanlega gætu þessir tveir flokkar náð samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir fram til áramóta og síðan borið ný kosningalög, t.d. einmenningskjördæmi ásamt uppbótarsætum, undir þjóðina í kosningum í haust. Flokkaglundroðinn og sjálfheldan munu auka trú kjósenda á gildi kosningalaga, sem gætu frekar skapað styrkan ríkisstjórnarmeirihluta en núverandi kosningalög geta.
En slíkar hugleiðingar eru ef til vill ótímabærar á þessu stigi. Forseti Íslands mun væntanlega fá leiðtoga stjórnmálaflokkanna hvern á fætur öðrum til skrafs og ráðagerða, líklega strax á morgun. Þá er trúlegt, að hinir nýju þingflokkar komi nú þegar saman til skrafs og ráðagerða um þá möguleika, sem eru til stjórnarmyndunar. Línurnar munu því væntanlega skýrast á næstu dögum.
Aðeins eitt er þegar ljóst, – að Sjálfstæðisflokkurinn verður forustuflokkur hinnar nýju ríkisstjórnar. Hann er eindreginn sigurvegari kosninganna og langstærsti flokkur þjóðarinnar, með 43% fylgi kjósenda að baki sér.
Jónas Kristjánsson
Vísir