Því lengur sem ráðamenn þjóðarinnar draga að taka mark á tillögum fiskifræðinga um minni þorskafla, þeim mun meiri fórnir verður að færa, þegar þar að kemur. Átakið, sem gera þarf, verður snöggtum erfiðara með ári hverju.
Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur fjallaði í kjallaragrein í Dagblaðinu fyrir skömmu um þetta ráðdeildarleysi. Rakti hann söguna frá árinu 1976, síðasta ári Breta í fiskveiðilögsögunni, er Íslendingar veiddu sjálfir 280 þúsund tonn af þorski.
Þá lagði Hafrannsóknastofnunin til, að þorskafli okkar yrði minnkaður í 265 þúsund tonn árið 1977 og í 260 þúsund tonn árið 1978. Er þá búið að draga frá 10 þúsund tonna afla útlendinga hvort ár.
Í þessum tillögum fólst ekki nema 15 þúsund tonna samdráttur fyrra árið og 5 þúsund tonna samdráttur til viðbótar síðara árið. Þetta hefði verið svo miklu auðveldara en að minnka aflann um þau 80 þúsund tonn, sem nú þarf.
Ef tekið hefði verið mark á fiskifræðingum í fyrra og hittifyrra, mætti í ár veiða 280 þúsund tonn af þorski í stað 250 þúsund tonna og á næsta ári mætti veiða 310 þúsund tonn í stað 270 þúsund tonna.
Samtals væri þetta 70 þúsund tonna aukning árin 1979 og 1980 á móti 20 þúsund tonna minnkun árin 1977 og 1978. Það hefði sem sagt verið stórkostleg skammtímafjárfesting að taka mark á aðvörunarorðum fiskifræðinganna.
Enn betri hefði langtímafjárfestingin verið. Hrygningarstofn þorsksins væri nú 270 þúsund tonn í stað 200 þúsund tonna. Og hann hefði komizt upp í 400 þúsund tonn á næsta ári, 1980 og í 500 þúsund tonn árið l981.
Ólafur segir: “Með vísindalegri stjórnun hefði því mátt nýta til fulls það svigrúm, sem skapaðist við brotthvarf Breta til markvissrar endurreisnar þorskstofnsins og tryggja þannig viðkomu hans og afrakstur um ókomna framtíð og það án teljandi samdráttar í efnahag þjóðarinnar.”
Í staðinn var skarð Breta fyllt með aukinni sókn íslenzkra skipa í þorskinn. Áherzlan var lögð á tímabundinn gróða af útsæðisáti. Hrygningarstofninn snarminnkaði og heildarstofninn minnkaði niður í algert lágmark.
Það var einmitt vegna þessara mistaka, að Dagblaðið ásakaði ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar um tilræði við þjóðarhag og taldi framferði Matthíasar Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra beilÍlínis glæpsamlegt.
Nú er komin ný ríkisstjórn og í þetta sinn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, sem sagði um daginn, að vel mætti veiða 300 þúsund tonn af þorski á þessu ári í stað 250 þúsund tonna í tillögum fiskifræðinga.
Um þetta segir Ólafur Karvel: “… eru viðbrögð ráðamanna óhugnanleg vísbending um að þeir hafi alls engan lærdóm dregið af mistökum í stjórnun fiskveiða á síðustu árum eða telji jafnvel, að mistök hafi hreint ekki átt sér stað …”
Fórnin, sem þurfti ekki að vera nema 15 þúsund tonn árið 1977, er árið 1979 komin upp í 80 þúsund tonn. Síðan mun hún aukast ár frá ári, unz ráðherrar vorir hafa endanlega eytt þorskstofninum og þjóðin getur beint öllum kröftum sínum að framleiðslu óseljanlegra útflutningsafurða landbúnaðar.
Enn verður að grátbiðja neikvæða, duglausa og þjóðhættulega ráðamenn okkar að taka sönsum. Dagblaðið tekur undir þau lokaorð Ólafs fiskifræðings, að “það, sem er gott fyrir þorskinn, er enn betra fyrir Íslendinga”.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið