Nýir menn á gömlum grunni

Greinar

Þrátt fyrir fjölda nýrra andlita í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, er sennilegt að stefna sambandsins verði svipuð því, sem verið hefur. Að grunni til hélt velli hin fyrri skipan mála, þótt ýmsar tilfærslur væru gerðar til samkomulags við óánægð öfl á þingi sambandsins.

Kröfurnar um fleiri fulltrúa láglaunafólks í miðstjórn báru nokkurn árangur. Í hinni nýju miðstjórn eru heldur fleiri fulltrúar verkamanna, verzlunarmanna og iðnverkafólks en voru í hinni fyrri og um leið færri fulltrúar hinna iðnlærðu manna, sem yfirleitt njóta mun betri kjara.

Hugsanlegt er, að óeðlilega mikið vægi fulltrúa byggingariðnaðarins í miðstjórn Alþýðusambandsins hafi haft áhrif á kjarabaráttu síðasta áratugar. Á þessum tíma hafa hátekjumenn í sambandinu treyst stöðu sína, sumpart á kostnað láglaunafólks. Horfur eru á, að hin nýja miðstjórn breyti þessu og gæti hagsmuna láglaunafólks tiltölulega betur en gert hefur verið oft áður.

Litill árangur náðist í baráttunni gegn því kerfi þjóðstjórnar, sem ríkt hefur í miðstjórn Alþýðusambandsins. Stuðningsmenn allra flokka komust í miðstjórn. Alþýðubandalagsmenn unnu þó eitt sæti af sjálfstæðismönnum. Má líta á þessa breytingu sem tilraun til að sætta hina svokölluðu “órólegu deild” Alþýðubandalagsins við hina umdeildu sáttastefnu stjórnmálaskoðana í miðstjórninni.

Atkvæðagreiðslan um miðstjórnarmenn sýndi, að meirihluti fulltrúa var trúr sáttastefnunni. Sjálfstæðismenn hlutu setu í miðstjórn á töluvert meira en helmingi atkvæða. þótt þeir væru ekki taldir vera nema um fjórðungur fulltrúa. Þeir hafa því farið inn á atkvæðum fulltrúa, sem styðja aðra stjórnmálaflokka.

Alþýðusambandinu er mikill styrkur að því að geta haldið þjóðstjórnarstefnunni, þótt í nokkuð breyttum hlutföllum sé. Alltaf er hættulegt, ef þarna myndast flokkspólitískar stjórnir, sem taka flokkspólitíska afstöðu til ríkisstjórnar og kjaramála. Fagleg eining er til þess fallin að styrkja stöðu sambandsins gagnvart ríkinu og viðsemjendum launþega.

Að sjálfsögðu þarf að sætta ýmis ólík sjónarmið Í þjóðstjórn. En ekki verður betur séð en það hafi lánazt sæmilega í miðstjórn Alþýðusambandsins á undanförnum árum og eigi að geta lánazt sæmilega hér eftir, þegar ýfingar sambandsþingsins hafa fallið í skuggann.

Það tekur sinn tíma að koma í ljós, hvort þessi bjartsýni á rétt á sér. Meira en helmingur miðstjórnarmanna er nýr á þeim vettvangi, þótt topparnir séu hinir sömu og áður. Þetta er mikil endurnýjun á aðeins einu þingi og getur að sjálfstöðu haft í för með sér breytingar, sem erfitt er að spá um núna, þótt stjórnkerfið hvíli í stórum dráttum á fyrra grunni.

Menn munu fylgjast spenntir með fyrstu skrefum hinnar nýkjörnu miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, enda er þar um að ræða eina af valdamestu stofnunum þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið