Nýiðnaður er nauðsynlegur

Greinar

Ítarlega útreikninga um mikilvægi þess að efla nýiðnað á Íslandi er að finna í nýrri iðnþróunaráætlun, sem sérstök nefnd hefur unnið að á vegum stjórnvalda. Með nýiðnaði er einkum átt við orkufrekan iðnað og aðra stóriðju.

Nefndin býst ekki við fjölgun starfskrafta í sjávarútvegi og landbúnaði, en telur hins vegar, að almennur iðnaður þurfi að taka við 1000 nýjum starfsmönnum í útflutningsgreinum og að nýiðnaðurinn þurfi að taka við 2000 nýjum starfsmönnum, hvort tveggja á einum áratug.

Nefndin bendir á, að vinnsluvirði á hvern starfsmann sé miklu hærra í nýiðnaði en í öðrum atvinnugreinum í landinu. Uppbygging nýiðnaðar muni því stuðla mjög að því, að í framtíðinni verði unnt að halda uppi hátekjuþjóðfélagi á Íslandi.

Í skýrslunni eru settar fram tölur til stuðnings því, að nýiðnaðurinn auki þjóðarframleiðsluna á mann, hækki tekjustig þjóðfélagsins, stuðli að fjölbreyttari atvinnuskipan í framleiðslu og þjónustu og hafi hagstæð áhrif á atvinnumöguleika.

Bendir nefndin sérstaklega á mikilvægi járnblendiverksmiðja á þessum sviðum. Þá er einnig minnt á, að nýiðnaðurinn framleiði til útflutnings og stuðli þar með að gjaldeyrisöflun og bæti samkeppnisaðstöðu iðnaðarins.

Vakin er athygli á, að ekki sé hagstætt að leggja innlent fjármagn í öll fyrirtæki í nýiðnaði. Í sumum tilvikum séu fjármunir þjóðarinnar betur komnir á öðrum sviðum, svo sem í orkuverum. Nefndin telur t.d. ekki heppilegt, að Íslendingar leggi fé í álverksmiðjur, en hins vegar álitlegt að leggja fé í saltvinnslu og magnesíumbræðslu. Um þetta segir m.a. í skýrslunni:

“Í þeim tilvikum, að auðlindirnar,.öll helztu aðföng, svo og tækniþekking eru innlend, kemur sérstaklega til álita, að meirihlutaaðild sé innlend, ,enda virðist þar geta farið saman hátt vinnsluvirði á mannafla og fjárfestingu. Verðlag aðfanga og hagnaður fyrirtækis er því meira háð innlendum aðstæðum og er eðlilegt, að innlendir aðilar hafi af þeim allan arð og vanda.”

Að lokum segir nefndin í kaflanum um nýiðnað: “Það er álit Iðnþróunarnefndar, að ráðstöfun takmarkaðs hluta þekktra innlendra auðlinda til nýiðnaðar á afmörkuðum tíma sé eðlileg stefna, er veitt geti ýmsa möguleika til frekari þróunar og auðveldað atvinnulífinu og efnahagslífinu að laga sig að breyttum samkeppnis- og viðskiptaskilyrðum. Má líta á slíkt tímabil uppbyggingar orkufreks iðnaðar og annars nýiðnaðar sem nýtt en afmarkað stig atvinnuþróunar hér á landi, er leitt geti til meiri efnahagslegs stöðugleika innanlands, stuðlað að hóflegu jafnvægi í nýtingu auðlinda landsins, þ.á.m. sjávarauðlinda, og lagt grundvöllinn að jafnari og öruggari efnahagsþróun í framtíðinni á fjölþættum grundvelli.”

Nefndin leggur til, að sérstök áherzla verði lögð á rannsóknir á sjóefnavinnslu og gosefnavinnslu að eigin frumkvæði Íslendinga, en að erlendir aðilar hafi frumkvæði í að koma upp álverum og málmblendibræðslum.

Jónas Kristjánsson

Vísir