Ný viðreisn

Greinar

Bjartara er yfir ríkisstjórninni þessa dagana en verið hefur um langt skeið. Aldrei þessu vant er samstaða á ýmsum sviðum milli tveggja og jafnvel þriggja stjórnarflokka um, hvað gera þurfi.

Hingað til hefur ríkisstjórnin hrakizt frá einni bráðabirgðalausn til annarrar. Jafnan hafa stjórnarflokkarnir á elleftu stund komið sér saman um það minnsta, sem mögulegt var að gera í hverju máli.

Efnahagsvandinn í nóvember var leystur með því að velta honum yfir á fjárlögin í desember. Og fjárlagadæmið Í desember var leyst með því að velta vandanum yfir á efnahagsfrumvarp febrúarmánaðar. Í hvert sinn sögðu menn, að vandinn yrði meiri næst.

Enginn vafi er á, að efnahagur þjóðarinnar er í mikilli hættu. Óstjórn þriggja ríkisstjórna á áttunda áratugnum hefur leikið þjóðarhag grátt. Ofan á brjáluðustu verðbólgu Íslandssögunnar er nú kreppa í aðsigi.

Hingað til hefur þessi ríkisstjórn ekki staðið sig betur en tvær þær síðustu á undan henni. Hún hefur að því leyti verið verri, að innan hennar hefur nánast ekki verið samkomulag um neitt. Nú er að verða á því nokkur breyting.

Veruleg samhljóman virðist vera í tillögum Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins um aðgerðir í efnahagsmálum. Vandinn virðist fyrst og fremst vera fólginn í að koma Alþýðubandalaginu úr rósrauðum hugmyndafræðiskýjum niður á jörðina.

Milli Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins ætti að geta náðst samkomulag um að halda ríkisbúinu i 30% af þjóðarbúinu og fjárfestingu í 25% af þjóðartekjum. Ennfremur samkomulag um raunvexti í því formi, að höfuðstóll sé verðbólgutryggður og vextir séu lágir.

Milli þessara flokka ætti að geta náðst samkomulag um minnkun sjálfvirkni í útlánum og um arðsemismat í ríkisframkvæmdum og útlánum. Ennfremur um þak á niðurgreiðslur, um vísitölu viðskiptakjara, svo og um 5% launahækkun 1. marz.

Sjálfsagt verður að hækka þessa prósentutölu í 6-7% til samkomulags við Alþýðubandalagið, sem hefur lýst sig sveigjanlegt í því efni. Í öðrum atriðum er meiri óvissa um afstöðu bandalagsins.

Ekki er sama að hafa góðan vilja og að framkvæma hann. Áhorfendur bíða spenntir að sjá, hvernig Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hyggjast ná hinum lofsverðu markmiðum.

Meira hófi í fjárfestingu má vafalaust ná með verðbólgutryggðum höfuðstól lána. Og kannski er verðbólgutryggður höfuðstóll ein helzta forsenda þess, að sjálfvirkni í útlánum minnki og að arðsemismat eflist. Þannig tengjast leiðirnar að markmiðunum á ýmsa vegu.

Ef ríkisstjórninni tekst að framkvæma þær hugmyndir, sem hér hefur verið lýst, er bæði hún og þjóðarhagur á framtíðarvegi. Þá væri um hliðstæðan uppskurð að ræða og viðreisnarstjórnin framdi í upphafi ferils síns og entist þjóðinni í einn áratug.

Líklega er það sagnfræðilegt lögmál, að ráðamenn treystast ekki til raunhæfra aðgerða fyrr en ástandið er orðið svo alvarlegt, að þorrinn er hver einasti möguleiki á bráðahirgðalausnum. Slíkt er ástandið einmitt nú.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið