Ný verkfallslög

Greinar

Öfgar verkfallsvörzlunnar hafa einangrað forustumenn ríkisstarfsmanna og eytt síðustu leifunum af samúðinni með málstað þeirra, sem upphaflega ríkti meðal almennings í atvinnulífinu.

Háværar eru orðnar kröfurnar um, að alþingi afnemi verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Ekki er sennilegt, að þessar kröfur fái nægan byr meðal þingmanna stjórnarflokkanna. En hugsanlegt er, að þeir geti náð samstöðu um lög, er setji verkfalli opinberra starfsmanna fastari skorður.

Kjaradeilunefnd dugar greinilega ekki, þótt þar sitji fulltrúar opinberra starfsmanna. Sú nefnd hefur vald til að ákveða, hverjir mega fara í verkfall og hverjir ekki. Forustumenn ríkisstarfsmanna taka samt lítið sem ekkert mark á úrskurðum nefndarinnar. Þeir segjast taka þá til vinsamlegrar athugunar!

Þannig hafa forustumenn ríkisstarfsmanna brotið lög til að knésetja kjaradeilunefnd. Ef kjaradeilunefnd gerir nú ekki alvöru úr því að kæra forustumennina fyrir lögbrotin, má líta svo á, að hún hafi gefizt upp á að halda uppi lögum og rétti. Styður það hugmyndina um, að alþingi neyðist til að taka til endurskoðunar lögin um verkfallsrétt opinberra starfsmanna.

Einfaldast er að ákveða í lögum, hvaða opinbera starfsmenn megi ekki stöðva í verkfalli. Nokkur reynsla hefur fengizt af því í núverandi verkfalli. Við slíka lagasetningu er mikilvægt, að hörð viðurlög verði við brotum á lögunum.

Banna verður alfarið verkföll í löggæzlu, brunavörnum, heilsugæzlu og annarri öryggisvörzlu. Ennfremur þurfa lögin að tryggja, að lágmarkssamgöngum sé haldið uppi bæði innanlands og við útlönd.

Goshætta við Mývatn og garnaveiki í Ísafjarðardjúpi hafa sannfært menn um, að sjálfvirki og handvirki síminn verður að starfa með eðlilegum hætti í verkfalli. Ennfremur þarf örugglega að vera unnt að útvarpa upplýsingum á sviði öryggismála.

Sambandið við útlönd er mikilvægara en menn hafa hingað til haldið. Sími, skeyti og telex þarf að starfrækja gagnvart útlöndum í verkfalli, þótt ekki sé nema vegna hinna mörgu, sem verða strandaglópar heima og erlendis.

Við það má bæta lágmarksflugsamgöngum við Norðurlönd, sem hafa gert samninga við Ísland um afnám vegabréfaskoðunar. Þá verður að starfrækja vopnaleit á Keflavíkurflugvelli og framkvæma leit að eiturlyfjum á grunsamlegu fólki. Að öðru leyti má “frysta” farangur þess fólks, sem kemur til landsins meðan á verkfalli stendur.

Loks þarf alþingi að ákveða, hversu langt megi ganga í að leyfa fámennum hópum eftirlitsmanna að stöðva heilar atvinnugreinar á borð við millilandaflugið og sjávarútveginn. Húsvarðadeila menntaskólanna er annað dæmi um vandamál af þessu tagi.

Meðan starfsmenn Reykjavíkur og margra annarra kaupstaða hafa samið, keppast verkfallsstjórar ríkisstarfsmanna við að efla óbeit manna á verkfallinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið