Ný söguskýring nr. 1.

Greinar

Í mafíuheiminum koma stundum upp ýmiss konar leiðindi, sem valda illdeilum milli einstakra fjölskyldna. Þegar þetta keyrir úr hófi fram, setjast fjölskyldufeðurnir niður og sættast að sinni, um leið og þeir draga ný mörk milli áhrifasvæða hinna einstöku fjölskyldna.

Í nokkra mánuði hefur sambúð Vísis og Tímans verið mjög óeðlileg. Framkvæmdamenn blaðanna hafa haft með sér náið samstarf á sama tíma og greinahöfundar þeirra hafa bitizt hart um persónu Ólafs Jóhannessonar dómsmálaráðherra.

Þetta hefur nú lagazt, síðan Steingrímur Hermannsson kom á vettvang í Tímanum og flutti báðum fjölskyldunum nýja söguskýringu, sem hentar vel til lausnar málsins. Má nú vænta friðar á þeim vígstöðum um ófyrirsjáanlegan tíma.

Í söguskýringu Steingríms kom Vísisfjölskyldan hvergi nærri árásunum á Framsóknarfjölskylduna. Hún lét bara vonda krata hafa sig að fífli. Þetta megi fyrirgefa, ef iðrunin er nægileg.

Steingrímur rekur og tölusetur einstaka þætti hins mikla kratasamsæris gegn Ólafi dómsmálaráðherra. Fremstan má þar telja Árna Gunnarsson, fyrrverandi fréttaritstjóra Vísis, sem á að hafa notað sér veikindi aðalritstjóra Vísis til að koma málinu af stað.

Steingrímur staðfestir, að Kristján Pétursson deildarstjióri Í tollinum, sé “kauði” og meira að segja fyrrverandi krataframbjóðandi í ofanálag. Hann hafi verið fenginn til að segja öðrum krataframbjóðanda, Vilmundi Gylfasyni, fréttirnar. Og þriðji krataframbjóðandinn, Árni Gunnarsson, hafi svo komið þessu Ólafsefni með undraverðum hraða inn í blaðið.

Síðan hafi það gerzt og áfram með amerískum hraða, að Sighvatur Björgvinsson Alþýðublaðsritstjóri hleypur með málið utan dagskrár inn á Alþingi og framkallar hina furðulegu ræðu Ólafs dómsmálaráðherra, sem mun verða mönnum lengi í fersku minni. Loks hafi sjálfir höfuðsmennirnir, Gylfi Þ. og Benedikt Gröndal, rekið endahnútinn á aðförina með því að ræða hneykslismál Ólafs dömsmálaráðherra í útvarpsumræðum frá Alþingi.

Fyrir þessa snilldarlegu söguskýringu á Steingrímur skilið sameiginleg verðlaun Vísisfjölskyldunnar og Tímafjölskyldunnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið