Suðurnesjatíðindi tóku nýlega undir gagnrýni Vísis á niðurgreiðslukerfið og studdu röksemdirnar um, að kerfið ruglaði verðsamræmi í landinu og spillti verðskyni almennings. En Suðurnesjatíðindi bentu líka á atriði, sem ekki hefur verið gaumur gefinn, að íslenzkir skattgreiðendur greiða líka niður neyzlu varnarliðsmanna.
Blaðið segir frá skýrslu um sölu Osta- og smjörsölunnar, Mjólkursamsölunnar og Sláturfélags Suðurlands til varnarliðsins. Í þeirri skýrslu kemur fram, að íslenzkir skattborgarar greiða 27 milljónir króna á ári í niðurgreiðslur á neyzlu varnarliðsmanna á íslenzkum landbúnaðarafurðum.
Þessi ábending blaðsins minnir um leið á, að íslenzkir skattgreiðendur borga líka landbúnaðarafurðir fyrir hina mörgu erlendu ferðamenn, sem hingað koma. Ekki er auðvelt að reikna, hve mikil þau fjárútlát eru, en þau eru alténd snöggtum meiri en útlátin vegna varnarliðsins og skipta vafalaust mörgum tugum milljóna króna á ári hverju.
Samtals nemur aukakostnaður þjóðarinnar gagnvart útlendingum vegna hins hrikalega niðurgreiðslukerfis áreiðanlega meira en 100 milljónum króna á ári og ef til vill nokkrum hundruðum milljóna.
Þessi dæmi varnarliðs og erlendra ferðamanna eru enn ein röksemdin fyrir því, að niðurgreiðslur verði lagðar niður og fjölskyldubætur teknar upp í staðinn. Með slíkri aðgerð mætti spara í einu vetfangi þær niðurgreiðslur, sem nú renna til varnarliðsins og erlendra ferðamanna.
Áður hefur verið bent á, hve nauðsynlegt er að koma á verðsamræmi og efla verðskyn neytenda. Mjólkin er orðin ódýrari yfir búðarborðið en undanrennan. Með sama áframhaldi verður smjörið senn ódýrara en smjörlíkið og lambakjötið ódýrara en fiskurinn.
Þetta kerfi kostar skattgreiðendur um fjóra og hálfan til fimm milljarða á ári og stuðlar þar á ofan að neyzlu á dýrum vörum ístað ódýrra. Tjón þjóðarbúsins af þeirri tilfærslu á neyzlu er einnig unnt að meta til fjár.
Áður hefur einnig verið bent á, að fjölskyldubætur í stað niðurgreiðslna mundu gera neytendum kleift að velja sér neyzlu eftir aðstæðum og beina kaupum sínum að þeim vörum, sem hafa mest næringargildi í hlutfalli við verð. Fyrir fjölskyldubótafé geta sumar fjölskyldur haldið áfram að kaupa mjólk, smjör og lambakjöt, en aðrar fjölskyldur fært neyzluna yfir í ávexti, smjörlíki og fisk og sparað sér töluvert fé um leið.
Ennfremur hefur áður verið bent á, að niðurgreiðslurnar þrengja framleiðslumöguleika bænda. Þær draga úr, að framleiddar séu alifuglaafurðir og kjöt af öðrum skepnum en kindum. Við höfum nýlega séð, að niðurgreiðslur dilkakjöts hafa gert nautakjöt svo óseljanlegt, að orðið hefur að selja það úr landi á 20-40 krónur kílóið, þótt það kosti 330-380 krónur í framleiðslu. Mismuninn greiðir ríkið, til gífurlegs tjóns fyrir skattgreiðendur.
Allir neita því, að niðurgreiðslurnar séu í sína þágu, ekki sízt talsmenn landbúnaðarins. Þeir ættu því að geta verið sammála Vísi um, að þetta bitbein verði látið hverfa úr sögunni, – niðurgreiðslunum verði breytt í fjölskyldubætur.
Jónas Kristjánsson
Vísir