Ný efnahagsstefna

Greinar

“Þeir harðsnúnu hagsmunahópar, sem mestu ráða hér á Íslandi, bæði innan þings og utan, geta orðið erfiðir viðureignar. Ég treysti þó á drengskap og þjóðhollustu þeirra manna, sem stjórna þessum hagsmunahópum, því öllum er ljóst, að svona getur þetta ekki lengur gengið.”

Þetta sagði Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður iðnrekendafélagsins á ársfundi þess í vikunni, er hann hafði sett fram nýjar tillögur um nýja efnahagsstefnu. Tillögur hans fara mjög saman við hugmyndir, sem fjallað hefur verið um í leiðurum Vísis að undanförnu.

Allar þessar hugmyndir og tillögur eru greinar af öflugri meiði. Hvarvetna í þjóðfélaginu eru menn um þessar mundir að átta sig á, að forréttindabúskapurinn í efnahagslífinu hefur gengið sér til húðar, og að hið háa Alþingi starfar oft sem samtök hagsmunaafla, þvert í gegnum flokkakerfið.

Tillögur Davíðs eru í stórum dráttum þessar:

Gengið verði rétt skráð, þannig að jafnan sé sem mest jafnvægi með gjaldeyristekjum og -notkun þjóðarinnar.

Allar útflutningsuppbætur verði afnumdar í áföngum á tíu árum.

Tekinn verði upp auðlindaskattur, svo að þeir, sem nýta auðlindir landsins, greiði þjóðinni fyrir afnotin.

Verðjöfnunarsjóðum verði beitt í mun ríkari mæli til að draga úr sveiflum í efnahagskerfinu.

Afnumin verði lög og ákvæði, sem orsaka sjálfvirkni í gerð fjárlaga.

Fjárlög verði á þenslutíma aldrei afgreidd með halla og skuldasöfnun.

Hætt verði útgáfu verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs til að fjármagna óarðbærar framkvæmdir.

Arðsemissjónarmið ráði fjárfestingu í atvinnuvegunum og lagasetningum þeirra vegna.

Breytt verði óraunhæfri tekjuskiptingu í sjávarútvegi.

Rofin verði tengsl verðmyndunarkerfis landbúnaðarafurða við afkomu annarra atvinnuvega og í þess stað verðið miðað við erlent markaðsverð búvöru.

Hætt verði öllum niðurgreiðslum og söluskattur lækkaður að sama skapi.

Samið verði um kjör opinberra starfsmanna og starfsmanna í byggingum, samgöngum, verzlun og þjónustu á grundvelli samninga við þá, sem starfa við vöruframleiðslugreinarnar, þ.e. fiskveiðar, fiskiðnað og framleiðsluiðnað.

Tekin verði upp ný kaupgreiðsluvísitala, sem breytist í samræmi við raunverulegar þjóðartekjur.

Peningamagn í umferð aukist ekki meira frá ári til árs en sem nemur vexti þjóðarframleiðslu.

Þessar tillögur Davíðs eru athyglisvert framlag í baráttunni fyrir afnámi hins gróna forréttindakerfis sem Alþingi hefur byggt upp á löngum tíma og leitt hefur yfir þjóðina stórkostlega verðbólgu, sóun fjármagns, of hægan lífskjarabata og hagvöxt og síðast en ekki sízt útbreitt pólitískt óraunsæi í efnahagsmálum.

Alþingi þarf að hætta að starfa sem afgreiðslustofnun fyrir gróna sérhagsmuni.

Jónas Kristjánsson

Vísir