Ný byggðastefna

Greinar

Íslenzk byggðastefna tekur skakkan pól í hæðina. Hún hlúir ekki að þjóðhagslega mikilvægum vaxtarbroddum úti á landi. Þvert á móti brennir hún peninga í tilgangslausu varnarstríði gegn eðlilegri stórborgarmyndun og gegn eðlilegri breytingu á atvinnuháttum þjóðarinnar.

Byggðastefnunni ætti fyrst og fremst að beina að útgerðarstöðunum umhverfis landið og með töluvert öðrum hætti en nú er gert. Byggja ber á þeirri staðreynd, að á þessum stöðum er stundaður háþróaður atvinnuvegur, sem væri bæði framleiðinn og arðbær, ef ríkið rændi ekki afrakstrinum með rangri skráningu gengis krónunnar og með ýmsum öðrum afskiptum.

Annars vegar ætti byggðastefnan að miða að bættum samgöngum þessara staða á sjó og í lofti við Reykjavíkursvæðið. Þetta felur í sér aukna áherzlu á gerð flugvalla og hafna. Hið síðarnefnda er einkum mikilvægt, því að það er jafnframt forsenda öflugs sjávarútvegs í bæjum og kauptúnum landsins.

Hins vegar ætli byggðastefnan að felast í réttri skráningu gengis krónunnar, þ.e. lækkun þess, samfara hærra fiskverði, bættum aflahlut útgerðar og afnámi hins sjúklega millifærslukerfis fiskvinnslu og útgerðar, sem magnazt hefur á undanförnum árum.

Sjávarútvegurinn er sennilega afkastamesti atvinnuvegur þjóðarinnar. Fengi hann að njóta framleiðni sinnar, mundu sjómenn hafa mun betri tekjur en þeir hafa nú og útgerð og fiskiðnaður gætu endurnýjað sig að töluverðu leyti af eigin fé.

Með þessum hætti mundi fjármagnið streyma til útgerðarstaðanna. Þeir yrðu færir um að sjá borgurum sínum fyrir nægilegri þjónustu og þeir yrðu færir um að tryggja sér öra fjölgun íbúa. Þeir yrðu sjálfir færir um að sjá um eigin byggðastefnu.

Samfara þessari nýju byggðastefnu gagnvart útgerðarstöðum landsins þarf að leggja niður margvíslegt fjáraustur, sem nú gengur undir nafninu byggðastefna.

Leggja ber niður forgang landsbyggðarinnar að rekstrar- og fjárfestingarfé ríkisins. Leggja ber niður forgang landbúnaðar að styrkjum, uppbótum, niðurgreiðslum, lánsfé og lánakjörum. Leggja ber niður Byggðasjóð og stöðva mismunun landahluta hjá öðrum slíkum sjóðum.

Ef sjávarplássin fá að njóta fulls arðs af útgerð sinni, þurfa þau ekki neinar forréttindafyrirgreiðslur umfram aðra. Fjármagnið mundi streyma til þeirra án slíkra afskipta. Hins vegar mundi sparast hin mikla fjárfesting í landbúnaði og atvinnubótaiðnaði úti um landsbyggðina.

Hér er í stuttu máli því haldið fram, að jákvæð byggðastefna eigi að taka við af neikvæðri. Hætta ber vonlausum stuðningi við gamla atvinnuvegi, sem fá ekki staðizt í nútímaþjóðfélagi vegna norðurlegu landsins, og við spánnýja atvinnuvegi, sem fá ekki staðizt vegna fámennis þjóðarinnar.

Úti á landi er frjómagnið fyrst og fremst í útgerð og fiskiðnaði. Þann gróðurreit ber að rækta til eflingar jafnvægis í byggð landsins, en sá ekki fjármagni þjóðarinnar í grýtta jörð undir fölsku flaggi byggðastefnu.

Jónas Kristjánsson

Vísir