Nú verður Bretastjórn að hugsa sig um.

Greinar

Stríðsleikur breskra herskipa á Íslandsmiðum hefur tekið á sig hættulega og óhugnanlega mynd, sem við þekkjum ekki úr fyrra þorskastríðinu, þegar heiðursmenn börðust með tilvitnunum úr biblíunni og gættu þess vendilega að stofna ekki mannslífum í hættu.

Hvað eftir annað hafa brezkar freigátur og dráttarbátar stofnað til árekstra við íslenzk varðskip. Skipstjórnarmenn Breta hafa reynt að kenna íslenzku skipherrunum um þessa árekstra, þótt slíkar fullyrðingar stríði gegn heilbrigðri skynsemi. Lítil skip reyna ekki að sigla niður margfalt stærri skip. Auk þess hafa aðferðir Breta við ásiglingarnar verið festar á filmur, svo að enginn vafi leikur á, hverjir eru upphafsmennirnir.

Þessi stríðsleikur skipstjórnarmanna hins konunglega flota er einkar torskilinn. Hvaða árangri þykjast þeir geta náð með kaldlyndum ruddaskap sínum? Vilja þeir raunverulega sigla íslenzku varðskipin í kaf? Vilja þeir fá fleiri mannslíf á samvizkuna? Hvaða tilgangi þjónar þessi hráslagalegi yfirgangur? .

Árekstrarnir eru orðnir svo margir, að ekki er hægt að túlka þá sem einkagarpskap einstakra skipherra, er séu orðnir leiðir á að fá ekki að láta vopnin tala. Brezk stjórnvöld hefðu fyrir löngu stöðvað þetta framtak, ef túlkunin væri rétt.

Miklu líklegra er, að árekstrarnir séu skipulagðir af yfirvöldum heima fyrir í Bretlandi. Við hljótum að vísa ábyrgðinni þangað. Það er því ekki óeðlilegt, að forsætisráðherra Íslands lýsi því yfir við brezk stjórnvöld, að eigi sér stað meiri ásiglingar af þeirra hálfu, muni þeim tilkynnt slit stjórnmálasambands Íslands og Bretlands.

Slík yfirlýsing gæfi brezkum stjórnvöldum tækifæri til að endurmeta afstöðu sína til ásiglinganna. Það gæti verið fyrsta skrefið í heildarendurskoðun Bretastjórnar á stefnu sinni í landhelgisdeilunni. Það er kominn tími til, að hinir vitrari menn í þeim hópi taki ráðin í sínar hendur. Hingað til hefur engu verið líkara en einhverjir aldraðir liðþjálfar úr nýlendumálaráðuneytinu gamla hafi ráðið stefnu brezku stjórnarinnar í landhelgismálinu.

Ef til vill hefur Heath forsætisráðherra og helztu ráðgjöfum hans ekki þótt landhelgismálið nógu merkilegt til að taka það sjálfir upp til nákvæmrar athugunar og leyft í þess stað einhverjum miður hæfum mönnum í kerfinu að ráða ferðinni. Því verður seint trúað, að Heath telji bolabrögðin á Íslandsmiðum vera hæfilegar baráttuaðferðir á þeim tímum, er ljóst er orðið, að mikill meirihluti þjóða heims er fylgjandi ekki bara 50 mílna, heldur 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Ef þessi skýring er ekki nokkurn veginn rétt, er engin von til þess, að landhelgisdeilu Breta og Íslendinga verði haldið í skefjum, hvað þá að nokkur von sé til samkomulags. Deilan hlýtur þá að harðna stig af stigi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Jónas Kristjánsson

Vísir