Nú gilda bara 200 mílur

Greinar

Fimmtíu mílna fiskveiðilögsaga er þegar orðin úrelt. Ekkert ríki heimsins virðist hafa áhuga á að gera slíka lögsögu að alþjóðlegri reglu. Það er mun víðtækari landhelgi, sem nú er deilt um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Í grófum dráttum skiptast ríki heimsins í tvo flokka. Annars vegar eru siglingaríkin, sem vilja frjálsar siglingar inn að tólf mílum og um öll þröng sund. Hins vegar eru þróunarríkin, sem vilja 200 mílna efnahagslögsögu, er felur í sér bæði fiskveiðilögsögu og námuvinnslulögsögu.

Svo virðist sem hægt sé að samræma þessi tvö sjónarmið með því að ákveða annars vegar þrönga siglingalögsögu og hins vegar víða efnahagslögsögu. Ef það tekst, er mikill meirihluti ríkja heims fylgjandi 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það eru sem sagt góðar horfur á, að sú lögsaga geti náð 2/3 meirihluta á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og þar með orðið að alþjóðalögum.

Við erum svo heppin að hafa góða málsvara á þessum vettvangi, bæði þá, er starfa að undirbúningi hafréttarráðstefnunnar, og fulltrúa okkar hjá Sameinuðu þjóðunum. Nú ríður okkur á að efla þetta starf sem mest. Við þurfum að vinna að því að samræma hinar mörgu tillögur, sem fram hafa komið um 200 mílna efnahagslögsögu og þar með talda fiskveiðilögsögu. Við þurfum að stuðla að viðtæku samstarfi 200 mílna ríkjanna um að vinna þeirri stefnu frekara fylgi.

Í ljósi þessa merkilega máls er þjarkið við Breta og Vestur-Þjóðverja um 5o mílna fiskveiðilögsögu ekki sérlega mikils virði. Við getum að vísu haldið áfram hinu árangurslausa samningaþófi enn um sinn. Við getum haldið áfram að tala um kvóta, veiðisvæði, skipastærðir og fleira þess háttar, en það er ekki mergurinn málsins.

Bretar og Vestur-Þjóðverjar hafa bitið sig fast í söguleg réttindi, sem upphaflega var aflað í krafti hins sterka gegn máttlitlu Danaveldi. Við þurfum ekki að gera mikið úr þessum réttindum og gætum alveg eins gert kröfu til skaðabóta fyrir aldagamla rányrkju erlendra rikja á Íslandsmiðum. Og samkomulagið, sem hugsanlega yrði gert við Breta og Vestur-Þjóðverja, mundi hvort sem er ekki gilda nema í eitt eða tvö ár, unz hafréttarráðstefnan hefur gefið nýja línu í landhelgismálum.

Við verðum að sætta okkur við, að Bretum tekst í skjóli ofbeldis að ná verulegum afla milli tólf og fimmtíu mílna, þrátt fyrir útfærsluna í fyrra. En það er Bretum dýr og skammvinn gleði, því að klukkan tifar stöðugt og færir hafréttarráðstefuna nær. Senn kemur að því, að Bretar og Vestur-Þjóðverjar vakni upp við þann vonda draum, að baráttan gegn 50 mílunum hefur verið til einskis, því að þeir verði að beygja sig fyrir 200 mílna alþjóðareglu.

Fimmtíu mílna útfærslan er að hverfa í skuggann af umræðunum um 200 mílurnar. Líklega verður í framtiðinni litið á þá útfærslu sem tiltölulega lítilvægt millispil í landhelgismálum heimsins. Við skulum því ekki ganga að neinum afarkostum í viðræðunum við Breta og Vestur.Þjóðverja, heldur láta tímann halda áfram að vinna með okkur. Við skulum segja þeim, að við höfum endanlega skipað okkur á bekk með 200 mílna ríkjunum og lítum á 50 mílna málið sem tiltölulega léttvægan biðleik í stöðunni.

Jónas Kristjánsson

Vísir