Nöturyrði um landbúnað

Greinar

Svo er nú komið, að jafnvel talsmenn landbúnaðarins treysta sér ekki til annars en að taka undir ýmislegt af þeirri gagnrýni, sem hin opinbera stefna í landbúnaði hefur sætt á síðustu tveim árum. Kemur þetta fram í tveimur skýrslum Rannsóknaráðs ríkisins, annarri um landbúnað almennt og hinni um sauðfjárrækt sérstaklega.

Höfundar þessara skýrsla eru að meirihluta til starfsmenn og stjórnarmenn Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, þeirra stofnana, sem harðast hafa staðið gegn efasemdum í garð landbúnaðar. Til viðbótar eru svo í hópnum fjórir verkfræðingar, flestir á sviði efnafræði, hvernig svo sem á því stendur.

Enginn kunnur gagnrýnandi landbúnaðar er meðal höfundanna, né neinn hagfræðingur, viðskiptafræðingur né rekstrarfræðingur, sem ekki er tengdur stofnunum landbúnaðarins. Samt er ein af þremur leiðum, sem þeir telja koma til álita í frekari þróun landbúnaðar, einmitt sú leið, sem gagnrýnendur hafa bent á.

Sú leið stefnir að nokkrum samdrætti í landbúnaði, svo að hann miðist eingöngu við innanlandsþarfir. Útflutningi á verðbættum afurðum verði hætt, en innflutningi beitt til uppfyllingar innlendri framleiðslu. Jafnframt yrðu ábúendur óhentugra jarða styrktir til að hætta búskap.

Athyglisverðust eru ummæli höfundanna um gjaldþrot núverandi stefnu Í sauðfjárrækt. Þar eru m.a. ákaflega kaldranalegar málsgreinar, sem hljóða svo, með athugasemdum Dagblaðsins innan sviga:

“Miðað við, að allir (athugið: allir) umbótamöguleikar í sauðfjárrækt séu nýttir, er hugsanlegt (athugið: hugsanlegt) að lækka breytilegan markakostnað framleiðslunnar úr 197,20 kr / hg í 78,90 kr / hg (þeir ættu að prófa svona kostnaðarlækkun í Reykhólaverksmiðjunni) . Með heildarátaki, sem innifæli slíka lækkun markakostnaðar, svo og (sem sagt til viðbótar við kraftaverkið) 30% lækkun sláturkostnaðar (aumingja kaupfélögin) og 30% hækkun markaðsverðs (segið Efnahagsbandalaginu þetta) miðað við 1974 væri hugsanlegt (takið eftir: hugsanlegt) að flytja út dilkakjöt á kostnaðarverði (árangur kraftaverksins er sem sagt kostnaðarverð).”

Þar með er ljóst, að háðfuglar eru til víðar en á Dagblaðinu. Nöturlegri lýsing á íslenskri sauðfjárrækt hefur enn ekki sézt á prenti.

Í skýrslunni segir einnig skýrum stöfum: “Framleiðni á Nýja-Sjálandi virðist mun hærri en hér, eins og ef til vill sést bezt á því, að framleiðslukostnaður nýsjálenzks bónda á 16,8 tonnum af kjöti og 6,6 tonnum af ull eftir 1650 kindur sýnist vera um það bil jafnhár og framleiðslukostnaður íslenzks bónda á 6,9 tonnum af kjöti og 0,62 tonnum af ull eftir 355 kindur.”

Fleiri dæmi úr skýrslunni sýna, að íslenzkur landbúnaður er óralangt frá því að vera samkeppnishæfur og að hann stuðlar með himinháu verði sínu að mjög lélegri kaupgetu Íslendinga Í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Samt heldur ríkið áfram að hossa landbúnaði margfalt umfram aðrar atvinnugreinar á Íslandi, svo sem sést á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið