Vígbúnaður Sovétríkjanna er þrúgandi, segir forseti norska stórþingsins, Guttorm Hansen, sem var hér um helgina á norsk-íslenzkri ráðstefnu um öryggismál.
Viðhorf hins norska jafnaðarmanns er dæmigert fyrir raunsæi Norðmanna á þessu sviði. Þeir hafa lært af biturri reynslu í síðari heimsstyrjöldinni og eru vel á verði. Níu af hverjum tíu Norðmönnum vilja hafa her og varnir og sjö af hverjum tíu vilja vera áfram í Atlantshafsbandalaginu. Þetta gildir jafnt um unga sem gamla.
Norðmenn verja miklu fé til landvarna. Með því ímynda þeir sér ekki, að þeir geti einir hrundið sovézkri árás. En þeir telja, að norski herinn geti þvælzt fyrir, meðan aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins skunda á vettvang.
Líklegast er talið, að árás á Noreg yrði samhliða aðgerðum um alla Evrópu að minnsta kosti. Þar með gætu Norðmenn ekki vænzt skjótrar aðstoðar bandalagsríkjanna í Evrópu. Hver þjóð hefði nóg að gera við varnir á sínu svæði. Aðstoðin við Noreg gæti fyrst og fremst komið frá Bandaríkjunum.
Ísland er mikilvægur áningarstaður á leiðinni milli Bandaríkjanna og Norður-Evrópu. Það gildir jafnt um flug sem siglingar, þótt ýmsar gerðir flutningavéla komist í einum áfanga yfir Atlantshafið.
Á ófriðartíma væri Ísland nauðsynleg herbækistöð að baki norsku víglínunnar. Hér væri meiri friður til að skipa liði og skipuleggja hergagnaflutninga heldur en við sjálfa víglínuna. Og héðan væri tiltölulega auðvelt að halda úti lofthernaði gegn framrás Rauða hersins á Norðurlöndum.
Norðmenn telja slíkar hugleiðingar enga óra. Þeir hafa bitra reynslu af útþenslustefnu og hernaði stórvelda. Og þeir hafa líka nærtækara vandamál en beina árás. Hinn stóraukni floti Sovétríkjanna á Norður-Atlantshafi veldur þeim áhyggjum. Þeir vilja, að sem bezt eftirlit sé haft með ferðum þessa flota.
Vegna alls þessa óttast Norðmenn nú mjög, að þeir missi Björn að baki Kára, ef Íslendingar láta varnarliðið fara úr landi eða gera það óvirkt með óhóflegri fækkun í því.
Bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn í Noregi voru sammála um efni bréfs til íslenzku ríkisstjórnarinnar, þar sem lýst var áhyggjum út af þróun mála á Íslandi og varað við ábyrgðarleysi í öryggismálum.
Tekið var fram í bréfinu, að framtíð landvarna á Íslandi væri ákvörðunaratriði Íslendinga einna. Hins vegar væri ekki óeðlilegt, að Norðmenn lýstu sínum hagsmunum í málinu.
Áhugi Norðmanna stafar ekki af því, að þeir verði að taka við erlendum her, sem færi héðan. Takmarkað gagn er af aukningu herafla á litlu landsvæði. Mun mikilvægara er að tryggja baklínuna og alla aðdrætti um hana. Það eru þessi sjónarmið, sem ráða viðbrögðum Norðmanna við ráðagerðum um breytingu á íslenzkum landvörnum.
Jónas Kristjánsson
Vísir