Níu umhugsunarefni

Greinar

Margt veldur því, að ekki er hægt að taka bókstaflega niðurstöðutölur skoðanakönnunar Dagblaðsins um úrslit borgarstjórnarkosninganna og alþingiskosninganna í Reykjavík. Vegur þar hvort tveggja þungt á metunum, vísindalegir annmarkar slíkra kannana og hinn mikli fjöldi kjósenda, er ekki hefur gert upp hug sinn til listanna, sem í boði eru.

Eiginlega er því ekki hægt að líta á niðurstöðutölurnar sem kosningaspá, heldur fremur sem umhugsunarefni, sem túlka má á ýmsa vegu. Bitastæðust eru kannski einstök ummæli hinna spurðu, er segja í heild nokkra sögu um þau mál, sem eru efst í hugum kjósenda í kosningabaráttunni.

Eitt af umhugsunarefnunum er spáin um, að Sjálf stæðisflokkurinn haldi meirihluta sínum í borgarstjórn Reykjavíkur, þótt hann tapi einum fulltrúa. Hlutfallstalan 52% skiptir ekki ýkja miklu máli, því að niðurstaðan yrði hin sama, þótt fylgið yrði í raun ekki nema 48%. Það stafar af því, að atkvæði minnihlutaflokkanna geta aldrei nýtzt til fulls.

Annað umhugsunarefnanna er spáin um gífurlega fylgisaukningu Alþýðuflokksins, einkum í alþingiskosningum í Reykjavík. Svo virðist sem lítið sem ekkert lát sé á hinum mikla meðbyr, sem lesa mátti úr annarri skoðanakönnun Dagblaðsins í vetur.

Þriðja umhugsunarefnið er spáin um fylgishrun Framsóknarflokksins, bæði í borgarstjórnar- og alþingiskosningum í Reykjavík. Vafalaust geldur þar flokkurinn eins og Sjálfstæðisflokkurinn óvinsælda ríkisstjórnarinnar. Sú skýring er þó engan veginn fullnægjandi, að því er varðar borgarstjórnarkosningarnar.

Fjórða umhugsunarefnið er spáin um trausta fylgisaukningu Alþýðubandalagsins, bæði í borgarstjórnar- og alþingiskosningunum í Reykjavík. Hún bendir til, að Alþýðubandalagið hafi endanlega stungið Framsóknarflokkinn af sem næststærsti flokkur þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins og sem veigamesta aflið gegn Sjálfstæðisflokknum.

Fimmta umhugsunarefnið er spáin um fylgisrýrnun Sjálfstæðisflokksins, Hún þarf að vísu ekki að koma á óvart, því að fyrir fjórum árum fékk hann óeðlilega mikið fylgi vegna óvinsælda þáverandi vinstri stjórnar.

Sjötta umhugsunarefnið er spáin um hinn mikla fjölda kjósenda, sem muni að þessu sinni sveiflast frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum yfir í stuðning við Alþýðuflokkinn í alþingiskosningunum í Reykjavík. Slík sveifla hefur að vísu alltaf verið til, en aldrei eins mikil og könnunin bendir til, að verði núna.

Sjöunda umhugsunarefnið er spáin um hrapallega útkomu annarra stjórnmálaafla en hinna fjögurra stóru. Hún er í samræmi við svipaða skoðanakönnun Dagblaðsins í vetur. Það er einkar athyglisvert á þvílíkum óánægjutímum, sem nú eru, að slík stjórnmálaöfl skuli ekki fá neitt út úr skoðanakönnunum.

Áttunda umhugsunarefnið er, að spárnar fela í rauninni í sér eflingu fjögurra flokka kerfisins, er þær telja minni flokkana tvo og einkum hinn minnsta munu hafa fylgi af stærri flokkunum tveimur.

Níunda umhugsunarefnið er svo, hvort kannanir sem þessar eigi rétt á sér, hvort þær rugli menn í ríminu og hafi óeðlileg áhrif á kjósendur eða hvort þær séu fróðlegt innlegg í stjórnmálin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið