Nifteindasprengjan

Greinar

Heimsveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, eiga furðu auðvelt með að heilaþvo Vesturlandabúa í áróðursherferðum, jafnvel þótt áróðurinn sé einstaklega gegnsær. Dæmi um þetta er áróður Sovétríkjanna gegn nevtrónusprengjunni eða nifteindasprengjunni eins og hún hefur verið kölluð hér á landi.

Nifteindasprengjan er vissulega hættulegt skref í vígbúnaðarkapphlaupinu. Ef Bandaríkjamenn hefja framleiðslu hennar, er líklegt, að Sovétmenn svari í sömu mynt og heimsveldin fari þannig enn einn hringinn á vítahring helreiðarinnar.

En nifteindasprengjan er ekki “auðvaldsvopn”, sem eyðir fólki og hlífir mannvirkjum. Að vísu eyðir hún mannslífum á víðara svæði en hún eyðir mannvirkjum, en sá mismunur er miklu minni en hjá öðrum kjarnorkusprengjum.

Þær kjarnorkusprengjur, sem hingað til hafa verið framleiddar, hefur fyrst og fremst verið unnt að nota gegn óbreyttum borgurum, sem búa í hernaðar-, iðnaðar- og samgöngumiðstöðvum langt að baki víglínanna.

Slíkum sprengjum er ekki unnt að beita á vígvellinum, því að eiturskýin geta lagzt yfir þá, sem sprengjunum beita. Nifteindasprengjan á að gera slíkt návígi kleift. Hana er unnt að nota gegn skriðdrekasveitum en ekki gegn borgum langt að baki víglínanna.

Sprengimagn nifteindasprengjunnar er ekki nema brot af krafti venjulegra kjarnorkusprengja. Auk þess fylgir henni ekki nema brot af þeirri geislun, sem fylgir venjulegum kjarnorkusprengjum. Geislunin er raunar svo lítil, að hún er ekki hættuleg eftir sprengingu.

Þess vegna er unnt að beita nifteindasprengjunni gegn skriðdrekasveit, sem er á takmörkuðu svæði, og fara síðan án geislunarhættu með her yfir það svæði, sem skriðdrekasveitin var áður á.

Þeir, sem deilt hafa á nifteindasprengjuna, hafa málað á vegginn mynd af ósködduðum stórborgum, fullum af beinagrindum. Þessi mynd er rakin lygi, eins og reynt hefur verið að skýra út hér að framan.

Nifteindasprengjan er raunar ekki eins ný af nálinni og menn halda. Bandaríkjamenn gerðu fyrstu tilraun sína á því sviði fyrir um fimmtán árum. Og líkur benda til, að Rússar hafi síðan einnig gert tilraunir með nifteindasprengjur. Líklega gætu þeir náð Bandaríkjamönnum mjög fljótt í framleiðslu slíkra vopna, ef þeir teldu sig þurfa á því að halda.

Herstjórar Atlantshafsbandalagsins eru ánægðir með nifteindasprengjuna. Þeir telja sig geta með henni hindrað sovézkar skriðdrekasveitir í að fara meira en örfáa kílómetra inn á landsvæði ríkja bandalagsins. Þeir telja sprengjuna auka verulega varnarmátt sinn.

Sumir aðrir sérfræðingar í hernaði telja, að nifteindasprengjan breyti litlu og að Atlantshafsbandalagið geti vel án hennar verið. Samkvæmt því ætti sprengjan að vera óþörf umferð í vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.

Hitt er líka alvarlegt, hversu margir bergmála rangfærslur um eðli og áhrif nifteindasprengjunnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið