Niðurgreiðslukrabbinn

Greinar

Eðlilegt er, að menn verði hvumsa, þegar þeir sjá,að í fjárlögum ríkisins fyrir þetta ár er gert ráð fyrir, að verja þurfi rúmlega fjórum milljörðum króna til niðurgreiðslna á dilkakjöti og mjólkurvörum.

Þessarar ofboðslegu fjárhæðar hefur nokkuð verið getið í deilum undanfarinna vikna um landbúnaðinn. Ekki hefur þess orðið vart, að talsmenn landbúnaðarins hafi mælt með þessum niðurgreiðslum, heldur hafa þeir lagt áherzlu á, að þær séu ekki komnar til sögunnar vegna bænda, heldur séu þær tæki til að halda vísitölunni í skefjum.

Við skulum í bili láta liggja milli hluta, fyrir hverja niðurgreiðslurnar séu, og kanna í þess stað, hvaða hliðarverkanir stafa frá þessu hagstjórnartæki, sem enginn vill kannast við.

Niðurgreiðslurnar rugla í fyrsta lagi verðsamræmið milli þeirra neyzluvara, sem eru hér á boðstólum. Þær halda uppi mikilli neyzlu dilkakjöts á kostnað annars kjöts, afurða af fiðurfé og fisks. Þær halda uppi mikilli neyzlu mjólkurvara á kostnað annarra matvæla, sem gætu komið í staðinn að hluta og eru í rauninni ódýrari.

Niðurgreiðslurnar hindra neytendur í að átta sig á raunverulegum verðmun neyzluvara. Þeir halda margir, að dilkakjöt og mjólkurvörur séu tiltölulega ódýrar, þótt þær séu í rauninni rándýrar. Þeir vita ekki, að þeir borga aðeins hluta verðsins yfir búðarborðið en hinn hlutann í skattinum.

Sá hlutinn, sem greiðist í skattinum, er hvorki meira né minna en 100.000 krónur á ári að meðaltali á fimm manna fjölskyldu. Væri ekki unnt að greiða þetta fé beint til fólks í stað þess að vera með niðurgreiðsluleik, sem enginn telur sig hagnast á?

Niðurgreiðslurnar rugla í öðru lagi samanburðinn á innlendum og erlendum landbúnaði. Þær valda því, að margir telja hinar niðurgreiddu íslenzku afurðir ekki verulega miklu dýrari en sömu afurðir í nágrannalöndunum í Evrópu.

Niðurgreiðslurnar leyna menn þeirri staðreynd, að skilyrði til landbúnaðar eru sérdeilis erfið hér á landi og að framleiðslukostnaður hans er tvöfaldur á við nágrannalöndin, svo að ekki sé borið saman við enn lægri framleiðslukostnað hins fullkomna landbúnaðar í Bandaríkjunum, sem brauðfæðir margar þjóðir þriðja heimsins að meira eða minna leyti, auk Bandaríkjamanna sjálfra.

Og það er mikilvægt fyrir neytendur að átta sig á þessum verðmun milli landa. Þeir skilja þá kannski betur, hvers vegna laun þeirra duga svo skammt. Þeir taka sig þá kannski saman um að grípa til sinna eigin ráða og fara að rífa niður kerfi, sem kemur af ótrúlegum þunga niður á lífskjörum þeirra.

Fáir treysta sér til að neita því, að niðurgreiðslurnar séu óheilbrigðar. Þær eru krabbamein í þjóðfélaginu, rugla verðsamræmi og verðskynjun og valda lélegri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Félagslegum markmiðum niðurgreiðslna má ná með öðrum hætti, til dæmis með því að endurgreiða þær neytendum í hlutfalli við fjölskyldustærð.

Jónas Kristjánsson

Vísir