Ráðamenn þjóðarinnar í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu hafa svikið þjóðina um að efla og jafna kosningarétt manna með breytingum á kosningalögum. Er þar hlutur ríkisstjórnarinnar sýnu verstur, en stjórnarandstaðan ber líka hluta ábyrgðarinnar.
Öllum þorra þjóðarinnar er ljóst, að takmarkað lýðræði ríkir, þar sem helmingur landsmanna hefur aðeins einn fimmta hluta úr atkvæðisrétti þeirra, sem hann hafa mestan. Forustumenn allra flokka keppast við að viðurkenna þetta.
Öllum þorra þjóðarinnar er einnig ljóst, að draga verður úr framboðslista-flokksræði í kosningum um leið og agnúar verði sniðnir af núverandi bráðabirgðaformi prófkosninga. Forustumenn flestra flokka keppast við að viðurkenna þetta.
Ráðamenn stjórnarmálaflokkanna komu fram í sjónvarpi í haust og lofuðu hver um annan þveran stuðningi flokka sinna við skjótar breytingar á þeim þáttum kosningalaga, sem mest stinga í augun. Samhljóman leiðtoganna vakti athygli um land allt.
Þar á ofan lofaði forsætisráðherra, að ríkisstjórnin sem heild mundi hafa forustu í málinu og efna þá þegar til samstarfs allra flokka. Þetta loforð var síðan tafarlaust svikið, enda er það siður íslenzkra ráðamanna að taka aldrei hið minnsta mark á eigin orðum.
Ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni var snemma í vetur kunnugt um, að ritari stjórnarskrárnefndar, Gunnar G. Schram prófessor, hafði samið ítarlegan rökstuðning fyrir því, að tvö atriði mætti laga til bráðabirgða með einfaldri breytingu á kosningalögum og án þess að hrófla við stjórnarskránni.
Annað atriðið kom snemma í vetur fram á þingi í frumvarpi Jóns Skaftasonar um óraðaða framboðslista, sem í rauninni sameina prófkjör og almennar kosningar í eitt. Samkvæmt því átti fólkið sjálft að fá að velja sína frambjóðendur, en þó hver kjósandi aðeins hjá þeim flokki, sem hann greiðir atkvæði.
Síðara atriðið kom nýlega fram á þingi í frumvarpi fjögurra þingmanna um afnám hlutfallsreglu við úthlutun uppbótarþingsæta og afnám banns við fleiri en einum uppbótarþingmanni flokks í hverju kjördæmi. Samkvæmt því átti að draga um nærri helming úr misjöfnum kosningarétti eftir landshlutum.
Ef ríkisstjórnin hefði nennt og viljað, væri hvort tveggja atriðið nú orðið að lögum. Þá hefði hún í haust efnt til fastra funda stjórnmálaflokkanna og lagt fyrir þá hugmyndir Gunnars G. Schram. En ríkisstjórnin nennti hvorki né vildi. Ef stjórnarandstaðan hefði haft raunverulegan áhuga á málinu, hefði hún fyrir löngu neytt ríkisstjórnina til að efna loforðið um samstarf í því. En stjórnarandstaðan nennti hvorki né vildi.
Enn einu sinni hafa ráðamenn þjóðarinnar í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu orðið berir að hræsni og svikum. Þeir þóttust vilja, en vildu ekki. Þeir þóttust nenna, en nenntu ekki.
Um leið hefur þorri þjóðarinnar verið hafður að fífli, sem situr nú í lok kjörtímabils með sárt enni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið