Þegar verkfallsmenn kunna ekki til verka, er hætt við, að verkföllin fái á sig óhugnanlega mynd, sem fælir alla alþýðu manna frá málstað verkfallsmanna. Í núverandi verkfalli hefur Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja ekki tekizt að finna neinn gullinn meðalveg í verkfallsvörzlu, er minnt geti á jafnvægi reyndra verkfallsmanna á vegum launþegasamtaka atvinnulífsins.
Verkfallsstjórar ríkisstarfsmanna hafa þó fleira en reynsluleysið sér til afsökunar. Andrúmsloftið í þessu verkfalli er óvenju óhreint, enda kynda Þjóðviljinn og Morgunblaðið undir hatri á báða bóga. Á föstudaginn gekk Morgunblaðið svo langt að hóta óbeint í leiðara, að söluskattur yrði hækkaður um 2,8 stig eða tekjuskattur um tæp 45%.
Í svona andrúmslofti er náttúrlega ekki von á, að skynsemin fái að ráða ferðinni. Alvarlegast er, þegar dagfarsprúðir menn, sem átta sig á, að þeir komast upp með að fara sínu fram utan laga og réttar, taka upp vaggandi göngulag gestapómanna, ábúðarmikinn málróm og fara á verkfallsvakt. Slíkt getur endað með alvarlegum mistökum.
Einna sorglegust er framkoma lögreglumanna á Keflavíkurflugvelli. Þeir hafa gengið svo langt að nota einkennisbúning sinn og lyklavöld til að hefnast á manni með því að setja hann í varðhald. Hafði sá hafnað að taka mark á verkfallsaðgerðum þeirra.
Vinnubrögð lögreglunnar í hliðum flugvallarins voru verkfallsaðgerðir, þar sem þau voru önnur en hún notar undir venjulegum kringumstæðum. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki komizt með neinni þrætubókarlist.
Lögreglumönnunum, sem stóðu að handtökunni, ber að vísa úr starfi, því að í gerðum þeirra felst vísir að geðþóttaríki lögreglumanna. Réttarríkið er ekki svo sterkt hér á landi, að það þoli sáðkorn af þessu tagi.
Einna furðulegust í verkfallinu er tilraunin til að láta einn mann stöðva störf hundraða kennara og nemenda í menntaskólum og háskóla. Jafn furðulegur var heybrókarháttur menntamálaráðherra, er hann beygði sig fyrir þessari firru. Sem betur fer hefur hann nú séð að sér.
Eina lífæð þessarar þjóðar gagnvart umheiminum er telexið. Þessa lífæð hugðust verkfallsstjórar höggva af, þvert ofan í fyrirmæli kjaradeilunefndar. Ríkisstjórnin greip þar réttilega í taumana.
Samfara öllum þessum leiðindum er svo heimskan, sem lýsir sér í ótal myndum. Íþróttafélag fær ekki undanþágu til að taka þátt í Evrópukeppni. Vissulega varðar slík undanþága ekki öryggi. En það er heimska verkfallsstjóra að reyna að spilla fyrir áhugafólki, sem ekki er aðili að vinnudeilunni.
Langt þref er um, hvernig flytja megi sjúka menn til Evrópu. Verkfallsmenn vaða um sjúkrahús með óviðurkvæmilegum truflunum. Þetta eru eins og naut í flagi.
Vonandi læra stjórnendur ríkisstarfsmanna af reynslunni um síðir, þegar geðshræringar eru liðnar hjá. Í næsta verkfalli hafa þeir ekki reynsluleysi sér til afsökunar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið