Fátt bendir til, að ofbeldið í Georgíu eigi uppruna sinn í kosningastjórn repúblikana í Bandaríkjunum. Atburðarásin hefði þá verið önnur og seinna á ferð. Kannski hafa ráðagerðir farið úr böndum. Einhver hefur gefið Mikeil Sakasvili Georgíuforseta bjartsýnar upplýsingar um aðstoð að vestan. Hann hefði varla ögrað Rússlandi að öðrum kosti. Að vísu segir Angela Merkel kanzlari, að Georgía komist í Nató. En ég á eftir að sjá, að Nató reyni að vinna Suður-Ossetíu og Abkasíu úr höndum Rússa. Líklegra er að bandalagið ábyrgist fullveldi Georgíu sjálfrar. Það má kannski telja ávinning Georgíu.