Ekki er hægt að gera ráð fyrir, að framkvæmdageta ríkisins verði mikil á næstunni. Komið hefur í ljós, að ríkissjóður sjálfur og helztu framkvæmdasjóðir ríkisins eru tómir og stórskuldugir og verða að skera verulega niður áætlanir sínar.
Það verður mikið verk að byggja þessa sjóði upp aftur og koma fjárhag hins opinbera á traustan grundvöll, ekki sízt þar sem útilokuð er frekari
skattheimta af þjóðinni en þegar er orðin. Eitt af grundvallaratriðum stjórnarsáttmálans er að halda útgjöldum og tekjum ríkisins í skefjum, enda er það nauðsynlegt, þegar verðbólgan ræður ríkjum í þjóðfélaginu.
Ekki verður myndin glæstari, þegar tekið er tillit til hinna mörgu og fjárfreku framfaramála, sem vinna á að á næstu árum. Það má teljast kraftaverk, ef á næstu árum tekst að sigla ríkisskútunni milli skers og báru, þegar peningaþörfin kallar að á annan bóginn og sparnaðarþörfin á hinn.
Innlend orkuvæðing kallar á verulegt fjármagn. 0rkuskorturinn í heiminum og hið háa verð á eldsneyti rekur á eftir nýtingu innlendra orkugjafa. Við þurfum að leggja hitaveitu til húsahitunar, þar sem því verður við komið, og koma upp rafhitun annars staðar. Við þurfum að láta innlendar rafstöðvar, ekki sízt gufuaflsstöðvar, leysa olíurafstöðvarnar af hólmi. Og við þurfum að fylgjast vel með tilraunum til að láta rafhlöðubíla leysa olíu- og benzínknúna bíla af hólmi.
Grunnskólakerfið er enn aðeins til að nafninu til. Það er ekki nóg að samþykkja frumvörp, ef ekki er unnt að fjármagna þau. Enginn virðist vita, hvað lögin um grunnskóla muni kosta þjóðfélagið á ári hverju, en það hlýtur að skipta hundruðum milljóna króna. Hvarvetna þarf að byggja skóla, svo að unnt sé að hafa þá einsetna og flytja heimanámið inn í þá. Og sjálfur rekstur grunnskólanna verður mun dýrari en rekstur núverandi skóla. Þetta verkefni verður gífurlega fjárfrekt á næstu árum, jafnvel þótt heill áratugur verði tekinn til að koma grunnskólanum í framkvæmd.
Vegakerfið á landinu er í vítahring eins og öllum vegfarendum er kunnugt um. Umferðin á malarvegunum er víða orðin svo mikil, að viðhaldið er orðið óviðráðanlegt. Þessi umferð kallar á varanlega vegagerð. Á þessu sviði eru kostnaðartölur svo hrikalegar, að menn þora varla að nefna þær, hvað þá að ímynda sér, hvernig fjármagnið verði útvegað.
Hin mikla landgræðsluáætlun, sem var gjöf þjóðarinnar til landsins síns í tilefni ellefu alda sambúðar, mun kosta 200 milljónir króna á ári. Við þessa áætlun verður að standa, hvað sem tautar og raular, og bætist þar við enn einn bagginn á sameiginlegan sjóð þjóðarinnar.
Loks má nefna hina nýju byggðastefnu, sem gerir ráð fyrir, að 2% fjárlaga verði framvegis varið til framkvæmda, er treysta eiga byggð um land allt. Þar með á loksins að framkvæma það í alvöru, sem menn hafa á undanförnum áratugum verið að káka við með litlum árangri. En þetta mun líka kosta mörg hundruð milljónir á ári hverju.
Þetta eru nokkur dæmi, sem sýna, hversu nákvæm fjármálastjórn ríkisins þarf að vera á næstu árum.
Jónas Kristjánsson
Vísir