Nafnaskipti nægja ekki

Greinar

Óánægjan með skattana er orðin svo almenn, að ráðherrar og þingmenn sjá, að við svo búið má ekki standa. Hin tveggja ára gömlu skattalög vinstri stjórnarinnar hafa elzt illa og verða nú senn að víkja fyrir nýjum lögum. .

Alþýðuflokkurinn hefur lagt fram frumvarp að nýjum skattalögum. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja slíkt frumvarp fram í þessari viku. 0g fjármálaráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar varpað fram ýmsum meginhugmyndum, sem væntanlega munu einkenna skattafrumvarp stjórnarinnar.

Sjaldan hefur svo mikil vinna verið lögð í einn málaflokk. Einkum er óvenjulegt, að stjórnarandstöðuflokkar skuli leggja jafnmikla vinnu í flókna lagabálka eins og raunin hefur orðið á í þetta sinn. Þetta er ánægjulegt merki um virka stjórnarandstöðu.

Allir virðast vera sammála um, að það beri að snarlækka tekjuskattinn. En það er takmörkuð lausn að koma með nýjan skatt í staðinn, breyta honum í söluskatt. Enn verri er sú hugmynd ríkisstjórnarinnar að hækka söluskattinn miklu meira en nemur lækkun tekjuskattsins.

Talið er, að ríkisstjórnin sé með hugmyndir um að lækka tekjuskattinn um 2.500 milljónir og hækka söluskattinn um leið um 3.500 milljónir. Væri þó meiri þörf á því að lækka tekjuskattinn um 3.500 milljónir, fara hóflegar í söluskattinn og hækka hann ekki nema um 2.500 milljónir.

Mismunurinn fæst náttúrlega ekki nema með niðurskurði fjárlaga. og það er sú staðreynd, sem þingmenn verða að horfast í augu við. Ekkert annað en niðurskurður fjárlaga getur fært þjóðinni raunhæfar skattalækkanir.

Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar benda á, að til séu ríki, sem taki meiri hluta þjóðarframleiðslunnar til sinna þarfa en íslenzka ríkið gerir. En það eru tvö atriði, sem ógilda þessa ábendingu.

Í fyrsta lagi höfum við ekki her á eigin vegum. Þar með spörum við þann lið, sem venjulega er dýrastur á fjárlögum annarra ríkja. Að herkostnaði frátöldum eru nágrannaríkin mildari í skattheimtu sinni en íslenzka ríkið.

Í öðru lagi höfðum við reynslu af því á sjöunda áratugnum, viðreisnarárunum, að hóflegri skattheimta gat vel farið saman við miklar framfarir í opinberri þjónustu. Þá tók ríkið ekki nema um eða undir 20% af þjóðarframleiðslunni til sinna þarfa, en nú er það hins vegar farið að nálgast 30%.

Við verðum að skilja, að fámenn þjóð getur ekki framkvæmt allt í einu á sviði almennra þarfa. Sá hraði, sem var í eflingu opinberrar þjónustu á viðreisnartímanum, var alveg eðlilegur, enda var hann í samræmi við eflingu þjóðarhags hverju sinni. Nú er útþensla ríkisbáknsins hins vegar langt umfram hagvöxt.

Þessi útþensla er hin raunverulega ástæða fyrir því, hve menn stynja mikið undan skattbyrði sinni og hve sammála stjórnmálamenn eru um, að nú þurfi ný skattalög. En byrðarnar verða ekki minnkaðar með því einu að breyta einum skatti í annan, heldur fyrst og fremst með því að skera niður fjárlögin.

Jónas Kristjánsson

Vísir