Eindálka mynd, sem birtist í Dagblaðinu 29. júní, hefur dregið töluverðan dilk á eftir sér. Þetta var myndin af breiðu fagurrauðra tómata á öskuhaugum Reykjavíkur.
Forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna reyndi fyrst að halda því fram, að þetta væri úrkast, sem flutt væri vikulega á haugana. Dagblaðsmenn vissu betur og varð forstjórinn loks að viðurkenna, að rúmu tonni af fyrsta flokks tómötum hefði verið ekið á haugana.
Daginn eftir kom í ljós, að innflutt hráefni frá Kína var ódýrara í blöndun tómatsósu á Íslandi en hin innlenda offramleiðsla, þótt tómatsósugerðin fengi tómatana á broti af því verði, sem almenningur varð að greiða.
Mikil reiði greip um sig vegna máls þessa. Hún sýndi, að Íslendingar eiga mjög erfitt með að sætta sig við, að fyrsta flokks mat sé fleygt til þess eins að halda uppi óraunhæfu verðlagi. Neytendasamtökin sendu Sölufélaginu harðorð mótmæli.
Samhliða þessu komu til skjalanna nokkrir garðyrkjubændur, sem gagnrýndu Sölufélagið og vinnubrögð þess. Varð af þessu langvinn ritdeila í lesendadálkum Dagblaðsins.
Gagnvart neytendum átti Sölufélagið þá einu vörn, að ekkert þýddi að lækka verð á tómötum. Reynslan sýndi, að söluaukning yrði sáralítil, þrátt fyrir útsöluverð, svo að stórtap væri af öllu saman.
Neytendasamtökin og aðrir bentu hins vegar á, að fyrri tilraunir af þessu tagi hefðu verið gerðar með hangandi hendi. Neytendum hefði aldrei verið gefið raunhæft tækifæri til að kaupa tómata á verulega lækkuðu verði.
Þetta fannst ráðamönnum Sölufélagsins svo fráleit kenning, að þeir beinlínis kröfðust eftirlits af hálfu Neytendasamtakanna, þegar þeir gáfust upp og lækkuðu verðið um þriðjung. Töldu þeir, að ráðamenn samtakanna mundu fljótt sjá tilgangsleysi verðlækkunarinnar.
Stappinu lauk föstudaginn 21. júlí með samkomulagi Sölufélagsins og Neytendasamtakanna um lækkun heildsöluverðs tómata úr 750 krónum kílóið í 500 krónur kílóið frá og með mánudeginum 24. júlí.
Á neytendasíðu Dagblaðsins birtust fjölmargar uppskriftir tómatrétta af ýmsu tagi. Fólk, sem lítið hafði notað tómata, áttaði sig á, að unnt var að nota þessa góðu vöru á margvíslegan hátt í matreiðslu.
Árangur útsölunnar varð líka sá, að offramleiðslan seldist upp á aðeins einni viku. Í mörgum verzlunum Reykjavíkur varð salan þrefalt meiri en áður hafði verið. útsalan hafði tekizt vonum framar.
Bæði garðyrkjubændur og neytendur högnuðust á þessari tilraun. Má því reikna með svipuðum vinnubrögðum á næsta sumri, þegar framleiðsla tómata kemst aftur í hámark.
Hagur neytenda var að vísu skammvinnur í krónum talinn, því að tómatar eru nú aftur komnir í fyrra verð. En hitt skiptir þó meira máli, að neytendur hafa sýnt styrk sinn og að verðskyn er enn til, þrátt fyrir verðbólguna.
Við skulum vona, að framhald verði á hinum nýju viðhorfum, sem komu í ljós á tómatavikunni. Ef neytendum tekst smám saman að fá markaðshyggju viðurkennda í innflutningi og sölu grænmetis og garðávaxta, hefur lítil mynd á forsíðu Dagblaðsins sannarlega velt þungu hlassi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið