Mykjuhaugurinn.

Greinar

Til þessa lands er flutt gnótt af erlendu kexi og sælgæti. Enginn hörgull er á þessum vörum, ekki einu sinni við enda langs farmannaverkfalls. Allan tímann voru hillur verzlana fullar af erlendu kexi og sælgæti.

Leyfisverzlunin með erlent kex og sælgæti verndar ekki innlendan iðnað. Reynslan sýnir, að höftin ná ekki þeim tilgangi að draga úr framboði á erlendum samkeppnisvörum. Það kom greinilega í ljós í farmannaverkfallinu.

Hins vegar eru það háir tollar á erlendu kexi og sælgæti, sem vernda innlenda samkeppnisframleiðslu. Þeir valda því, að einungis borgar sig að flytja inn sumar tegundir, aðallega þær, sem ekki eru búnar til hér.

Vélakostur og reynsla innlendra fyrirtækja í framleiðslu kex og sælgætis beinist að afmörkuðum vörutegundum. Þau hafa nóg að starfa á þeim sviðum, sem þau hafa sérhæft sig á, enda kemur þar tollverndin að gagni.

Það er rúm fyrir innflutning líka, enda sýnir reynsla leyfisveitinganna, að yfirvöld treysta sér ekki til að vernda innlendu framleiðsluna umfram þá vernd, sem tollarnir veita.

Svo getur farið, að tollar þessir lækki eða hverfi vegna alþjóðlegrar samvinnu. Þá kemur til greina að hætta að niðurgreiða mjólkurduft til útflutnings í innflutt kex og niðurgreiða það heldur til innlendrar framleiðslu.

Leyfisverzlunin á þessum sviðum hefur meðal annars þau hliðaráhrif, að beztu innfluttu vörurnar njóta ekki jafnræðis markaðarins. Of mikið er gefið út af leyfum fyrir kex og sælgæti, sem neytendur hafa ekki áhuga á.

Gjaldeyrisyfirvöld hafa nefnilega ekki sérþekkingu á, hvaða kex og sælgæti rétt sé að leyfa að flytja inn. Þá sérþekkingu hafa neytendur og þurfa því ekki á aðstoð skömmtunarstjóra að halda.

Verra er þó, að risið hefur upp mykjuhaugur í kringum haftakerfið með stétt töskuheildsala, sem lifa á því að flaðra út leyfi hjá skömmtunarstjórum og selja þau síðan áfram grónum innflutningsfyrirtækjum, sem ekki fá leyfi í samræmi við umsetningu.

Leyfakerfið býr til spillingu á þessu sviði eins og slík kerfi hafa alltaf gert og munu alltaf gera. Flaðrandi töskuheildsalar freistast til að bjóða einstaklingum í haftakerfinu hlutdeild í skjótfengnum gróða.

Dagblaðið hefur að undanförnu sýnt fram á ýmis skúmaskot þessa leiks, sem leiðir til hækkaðs vöruverðs til neytenda. Í upplýsingasöfnuninni hefur blaðið rekizt á múrvegg kerfiskarla, sem stjórna haftakerfinu.

Dagblaðið hefur reynt að fá til birtingar lista yfir gjaldeyrisúthlutanir til innflutnings á kexi og sælgæti. Ekki hefur það tekizt enn og bendir það til þess, að viðkvæmir eiginhagsmunir séu í húfi.

Skráin yfir ljúflinga kerfisins á þessu sviði og stéttaskiptingu þeirra flokkast undir bankaleynd að mati gjaldeyrisyfirvalda! Listinn yfir forréttindamenn leifanna af haftakerfinu er bankaleynd!

Hér hefur verið bent á, að leyfakerfið þjónar engum tilgangi. Það verndar ekki innlendan iðnað. Það leiðir til óhagkvæms innflutnings og of hás verðs til neytenda. Allra alvarlegastur er þó mykjuhaugurinn, sem jafnan safnast kringum skömmtunarstjóra.

Stjórnvöld þykjast vera að kanna málið. Kannski má vænta þess, að mykjuhaugurinn verði senn fjarlægður.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið