Morðtilraun með nefnd

Greinar

Staða Dagblaðsins í verðbólgunni er ósköp einföld. Það heldur jöfnu. Ár eftir ár standast tekjur og gjöld nokkurn veginn á. Þetta er alls ekki nógu traust útkoma, en dugar þó til þess, að Dagblaðið heldur velli, stjórnmálaflokkunum og kerfi þeirra til sárrar skapraunar.

Nú er kominn til valda viðskiptaráðherra, sem hefur fanatískar austantjaldsskoðanir á prentfrelsi. Jafnframt er hann minna vandur að meðulum en kerfið hefur hingað til verið. Hann þykist hafa fundið leið til að kippa rekstrargrundvellinum undan Dagblaðinu.

Leið hans er sú að lækka með valdboði söluverð Dagblaðsins og annarra dagblaða, en bæta hinum blöðunum upp tjónið með auknum beinum og óbeinum styrkjum af almannafé. Þetta hefur hann raunar viðurkennt með því að segja blöðin þurfa hækkun, en þau geti bara fengið hana með ýmsum hætti.

Ef Dagblaðið hefði látið viðskiptaráðherrann kúga sig, mundi það valda blaðinu um 40 milljón króna tapi á ári á núverandi verðlagi. Slíkan halla mundi Dagblaðið ekki standast í heilt ár, enda hefur það ekki að baki sér stjórnmálaflokk með tilsvarandi bankavaldi.

Dagblaðið vildi ekki láta austrænan viðskiptaráðherra drepa blaðið með einu pennastriki. Þess vegna er nú hafinn umfangsmikill málarekstur. Sú er von blaðsins, að dómsvaldið í landinu hafi ekki glatað skilningi á einni grundvallarforsendu stjórnarskrárinnar, tjáningarfrelsinu.

Þessi málarekstur hefur þegar leitt í ljós, að svokölluð verðlagsnefnd hefur ekki það hlutverk að halda niðri verðlagi í landinu, heldur vera ráðherra til aðstoðar við fölsun vísitölunnar. Nefndin skiptir sér lítið af verðhækkunum utan vísitölu, en hefur þeim mun meiri óbeit á verðhækkunum innan vísitölu.

Ennfremur hefur hann leitt í ljós, að þessi vísitölufölsunarnefnd tekur ákvarðanir án þess að hafa nein fullnægjandi gögn við að styðjast og án þess að krefjast slíkra gagna. Hún hefur því brotið þær lagagreinar, sem fjalla um vinnubrögð hennar. Enda hafa sumir nefndarmanna fordæmt þessi vinnubrögð með atkvæði sínu.

Spurningin er sú, hvort gerræðisfullur ráðherra getur beitt sýndarmennskunefnd til að slátra fyrirtækjum, sem honum er illa við og sem halda uppi tjáningarfrelsi utan stjórnmálaflokkanna. Hitt er skiljanlegra, af hverju hann byrjar á Dagblaðinu. Þá er nefnilega líklegra, að þagað verði um framhald vinnubragða hans.

Í rauninni á Dagblaðið engan bakhjarl í máli þessu nema almenning í landinu, sem sér, hvernig reynt er að ráða tjáningarfrelsi í landinu með pennastriki í kerfinu. Auðvitað gæti fólk hafnað hækkun verðs Dagblaðsins með því að hætta að kaupa það og fara að kaupa niðurgreidd ríkisdagblöð.

Sem betur fer hefur fólk staðið með Dagblaðinu í fyrstu lotu. Senn kemur að annarri lotu, þegar áskrifendur verða rukkaðir um mánaðargreiðslu. Það er trú okkar og von, að þeir séu sammála afstöðu Dagblaðsins með sama hætti og þeir mörgu áskrifendur, sem hafa bætzt í hópinn síðustu daga einmitt vegna þessa máls.

Fólkið í landinu er farið að bjóða samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna birginn. Með samstöðu getur fólk brotið það á bak aftur í hverju málinu á fætur öðru. Vörn Dagblaðsins gegn aðför viðskiptaráðherra er fyrsta prófmálið fyrir þeim dómstóli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið