Mara tveggja mánaða stjórnarkreppu liggur ekki lengur á þjóðinni. Stjórnleysi undanfarinna vikna víkur nú fyrir traustri ríkisstjórn með 70% þingmanna að baki sér. Mönnum léttir, hvar í flokki sem þeir standa.
Lausnin var fólgin í samstarfi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Leiðin að þeirri lausn tók raunar skemmri tíma en reikna mátti með. Næstum tveggja áratuga andstaða þessara flokka hafði dulið fyrir mönnum þá staðreynd, að þeir eiga samstöðu í ótrúlega mörgum málum. Þess vegna tók það aðeins tvær vikur að sætta tveggja áratuga andstæður
Ólafur Jóhannesson tók að lokum þá ákvörðun að standa upp fyrir Geir Hallgrímssyni. Þar með var úr vegi síðasti þröskuldur samstarfsins. Þetta var stórmannleg ákvörðun og skynsamleg, því að þorri sjálfstæðismanna var þeirrar skoðunar, sem kom fram hér í Vísi, að undir núverandi kringumstæðum yrði forustan að vera í höndum Sjálfstæðisflokksins, ef þessir tveir flokkar ættu að geta unnið saman.
Þegar þetta er ritað, er ekki vitað, hverjir verða ráðherrar Framsóknarflokksins. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið nýja menn, sem ekki voru á oddinum síðustu ár viðreisnarstjórnarinnar. Aðeins einn þeirra, Gunnar Thoroddsen, hefur áður verið ráðherra, á fyrstu árum viðreisnarinnar. Hinir þrír, Geir Hallgrímsson, Matthías Bjarnason og Matthías Á. Mathiesen, hafa ekki verið ráðherrar. Öllum þessum mönnum ætti að fylgja ferskur blær í ríkisbáknið.
Reynslan af samstarfi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í ríkisstjórn er ekki nógu góð. Nú verða flokkarnir að læra af annmörkum fyrra samstarfs og reyna að gera betur. Mikilvægasta leiðin til þess árangurs er, að báðir aðilar sýni fyllsta traust og einlægni í samstarfinu.
Þetta ætti að vera unnt. Sjálfstæðismenn hafa reynslu af heiðarlegu samstarfi frá viðreisnartímanum. Og framsóknarmenn hafa bitra reynslu af því að vera fórnardýr óheiðarleika og launvíga í samstarfi vinstristjórnar.
Í ríkisstjórninni, sem nú tekur til starfa, verður reynslan smám saman að efla gagnkvæmt traust og einlægni. Hin ítarlegi stjórnarsáttmáli flokkanna er hin traustasta undirstaða þess, að svo megi verða. Hann er forsenda þess, að unnt er að spá vel fyrir hinni nýju stjórn.
Hún er hins vegar ekki öfundsverð af verkefnum sínum. Hún þarf þegar að taka til óspilltra málanna til þess að hindra, að þjóðargjaldþrotið leiði til hrikalegs atvinnuleysis á næstu mánuðum. Og jafnframt þarf hún að hefja undirbúning ýmissa framfaramála, er tryggt geti varanlega endurreisn, þegar fyrstu björgunaraðgerðum er lokið.
Nýja ríkisstjórnin er boðin velkomin til starfa. Menn vænta mikils af henni á þessum erfiðu tímum og treysta henni til þess að taka á vandamálunum af einurð og festu. Við vonum, að innreið hennar valdi þáttaskilum í íslenzkum þjóðmálum.
Jónas Kristjánsson
Vísir