Frumkvæði mjólkurfræðinga mun án efa vekja mikla athygli í öðrum launasamtökum. Þeir hafa fundið nýja leið í kjarabaráttu hér á landi. Þeir eru farnir í verkfall, en vinna samt áfram á fullu kaupi.
Mjólkurfræðingum er þó ekki alveg sama, við hvað þeir vinna í verkfallinu. Frágangur mjólkur til sölu er ekki talinn við hæfi. Enda er mjólk verðskásta afurð mjólkurvinnslunnar.
Í verkfallinu vilja mjólkurfræðingar aðeins starfa á fullu kaupi við að hækka fjöll smjörfjalls og mjólkurdufts. Enda eru það næstum verðlausar afurðir, sem ríkið verður að kaupa dýrum dómum og gefa til útlanda.
Loks beinist verkfall mjólkurfræðinga ekki að vinnuveitendum þeirra, bændum og sölusamtökum bænda. Þeir geta áfram selt alla sína mjólk, þrátt fyrir verkfallið. Og þeir fá áfram fullt verð fyrir hana.
Verkfall mjólkurfræðinganna beinist hins vegar að börnum í þéttbýli, sem fá enga mjólk. Þessi börn eru raunar hin einu, sem geta haft áhyggjur af verkfallinu. Að minnsta kosti má vinnuveitendum mjólkurfræðinga vera sama.
Mjólkurfræðingar eru semsagt í verkfalli, en samt á fullu kaupi. Þeir neita að afgreiða tiltölulega verðmæta mjólk, en framleiða verðlítil afurðafjöll. Þeir beina geiri sínum ekki að vinnuveitendum, heldur börnum í þéttbýli.
Dálítil rökhyggja kann að vera á bak við þetta, ef vel er leitað. Ríkið borgar auðvitað smjörfjallið og mjólkurduftsfjallið, sem mjólkurfræðingarnir búa til. En það borgar þetta ekki með peningum núverandi skattgreiðenda.
Auðvitað tekur ríkið bara lán til að bjarga málinu. Þegar það lán verður endurgreitt síðar, lendir það á skattgreiðendum þess tíma. Og þeir verðandi skattgreiðendur eru einmitt börnin, sem ekki fá mjólkina núna.
Annars lýkur þessu sérkennilega verkfalli sennilega snemma. Mjólkurfræðingar og umboðsmenn bænda geta áreiðanlega komið sér saman um, hver skuli vera laun mjólkurfræðinga. Vinnuveitendur mjólkurfræðinga borga nefnilega ekki brúsann.
Kostnaður mjólkurbúanna er bara reikningsdæmi, sem lýkur við hækkun landbúnaðarafurða við næsta tækifæri. Við venjulegar aðstæður fá neytendur þá að borga kostnaðinn af samningum mjólkurfræðinga og umboðsmanna bænda.
Telji ríkisstjórnin ekki henta sér að skapa urg hjá neytendum, segir hún bara hókus-pókus og greiðir niður hækkunina. Sú niðurgreiðsla lendir annaðhvort á núverandi eða væntanlegum skattgreiðendum.
Í rauninni snertir verkfallið hvorki mjólkurfræðinga né vinnuveitendur þeirra. Bæði mjólkurfræðingar og bændur hafa óskertar tekjur í verkfallinu. Þar af leiðandi er hér um að ræða einhverja allra sniðugustu vinnudeilu, sem fundin hefur verið upp.
Það er von, að þessir aðilar skuli geta beitt gamansömum vinnudeilum. Þeir eru í samstarfi um framleiðslu og vinnslu afurða á kostnað ríkis, skattgreiðenda og neytenda. Báðir aðilar gera út á kerfið.
Við slíkar aðstæður geta menn búið til verkfall og unnið samt á fullu kaupi. Við slíkar aðstæður geta menn einbeitt sér að framleiðslu verðminnstu afurðanna. Við slíkar aðstæður geta menn beint geiri sínum að hinum raunverulegu vinnuveitendum, mjólkurlausum þéttbýlisbörnum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið