Mjólkin í matvörubúðir

Greinar

Nú er loksins að rætast hinn langþráði draumur neytenda á Reykjavíkursvæðinu að geta keypt allar sínar nauðsynjar í þeirri matvöruverzlun, sem þeim líkar bezt við. Mjólkursamsalan í Reykjavík er hætt varnarstríðinu gegn mjólkursölu í matvöruverzlunum.

Samningar standa yfir um sölu á 40 mjólkurbúðum Samsölunnar og flutning mjólkursölunnar yfir í þær matvörnverzlanir, sem uppfylla skilyrði Samsölunnar um hreinlæti og kæligeymslur. Þar með ætti að ljúka langvinnu leiðindamáli, sem hefur áratugum saman varpað skugga á samskipti bænda og neytenda.

Neytendablaðið benti í fyrra á, að kerfi sérstakra mjólkurbúða væri arfur frá mjólkurbrúsaskeiðinu, þegar erfitt var að gæta fyllsta hreinlætis í almennum matvöruverzlunum. Nú er. mjólkin hins vegar seld í lokuðum umbúðum og margar matvöruverzlanir hafa fyrirtaks kæliaðstöðu.

Neytendum hefur verið óhagræði af að þurfa að ganga úr búð í búð til að afla sér daglegra nauðsynja. Nútímafólk, sem vinnur mikið, hefur ekki tíma til að standa í hverri biðröðinni á fætur annarri. Það vill velja sér eina matvöruverslun eftir verði og gæðum og geta fengið þar allar nauðsynjar, líka mjólk, brauð og fisk.

Bændur hafa .skipað stjórnir þeirra fyrirtækja og hálfopinberra stofnana, sem staðið hafa gegn þessum sjálfsögðu endurbótum.Tregða þessara aðila á að fallast á réttmæt sjónarmið neytenda hefur stuðlað að fjandsamlegri afstöðu margra þéttbýlisbúa í garð bænda. Þeir hafa talið bændur mjólka kerfið miskunnarlaust í krafti einokunar og annarra fríðinda.

Þegar samkomulagið um mjólkursöluna á Reykjavíkursvæðinu er komið til framkvæmda, er rutt alvarlegri hindrun úr vegi gagnkvæms skilnings neytenda og bænda á högum hvors annars. En slíkur skilningur er einmitt báðum aðilum nauðsynlegur, ef frekari þróun samskipta þeirra á að vera með eðlilegum og friðsamlegum hætti.

Enn er eftir alvarlegur blettur á mjólkursölu bændasamtaka sums staðar í þéttbýli utan Reykjavíkursvæðisins. Um þennan blett segir í Neytendablaðinu: “Ekki er annað sýnilegt en kaupfélagsverzlanir notfæri sér þar víða mjólkursölu til mjög svo óheiðarlegrar samkeppni, sem hlýtur að vera neytendum til óhagræðis”.

Neytendablaðið gerði að sérstöku umræðuefni siðlausa framkomu kaupfélagsins í Ólafsfirði, er vildi “versla með stöðu neytandans á Ólafsfirði á fremur ruddalegan hátt”. Þetta sagði blaðið, að væri “forkastanleg misnotkun á lögunum um framleiðsluráð landbúnaðarins”.

En nú er farið að rofa til, sem betur fer. Vonandi er væntanlegt samkomulag um mjólkursöluna á Reykjavíkursvæðinu upphaf að eðlilegri viðskiptaháttum um allt land, neytendum og bændum til gagns og sóma.

Jónas Kristjánsson

Vísir