Skoðanakönnun Dagblaðsins reyndist fara mjög nærri úrslitum borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Frávikið frá réttum tölum varð að meðaltali aðeins rúmlega þrjú prósentustig. Það er með því bezta, sem ýtarlegar, erlendar skoðanakannanir ná.
Af fimmtán borgarstjórnarsætum gat skoðanakönnunin aðeins rangt til um eitt. Það var að vísu mikilvægasta sætið, er fimmti maður Alþýðubandalagsins fór átta til níu atkvæðum upp fyrir áttunda mann Sjálfstæðisflokksins. Enda eru skoðanakannanir ekki nógu fínlegur mælikvarði á átta til níu atkvæða mun.
Vísir fór hins vegar alveg flatt í sinni könnun. Þar var skekkjan í tölu borgarfulltrúa hvorki meiri né minni en fjórum sinnum meiri. Skoðanakönnunin gat rangt til um fjögur sæti. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjórum sætum minna, Alþýðubandalagið þremur meira og Framsóknarflokkurinn einu meira en tölur skoðanakönnunar Vísis fólu í sér.
Dagblaðið reyndist þrefalt nákvæmara í prósentustigum sínum en Vísir, sem reyndist hafa að meðaltali rúmlega níu prósentustiga skekkju í tölum sínum. Þetta bendir til, að vinnuaðferð Dagblaðsins hafi verið heppilegri, þótt úrtakið væri minna.
Dagblaðið náði lélegustum árangri í spánni um fylgisaukningu Alþýðubandalagsins, 6,7 prósentustiga skekkju. Í stað hinna spáðu 23% gildra atkvæða fékk bandalagið 29,7%.
Þetta var þó mun skárri útkoma en hjá Vísi, sem gaf bandalaginu 15% gildra atkvæða, aðeins helming hinnar raunverulegu niðurstöðu í kosningunum. Þar var skekkjan hvorki meiri né minni en 14,7 prósentustig.
Skekkja Dagblaðsins í spánni um gild atkvæði Sjálfstæðisflokksins nam 4,5 prósentustigum. Í stað 52% í skoðanakönnuninni fékk flokkurinn 47,5% í raunveruleikanum.
Einnig á þessu sviði var útkoman mun skárri en hjá Vísi, sem gaf Sjálfstæðisflokknum 66% gildra atkvæða. Þar var skekkjan 18,5 prósentustig.
Ef ekki er miðað við gild atkvæði, heldur alla könnun Vísis, líka þá, sem ekki vildu svara, verður skekkjan þar minni í tölum Sjálfstæðisflokksins, en hins vegar gífurlega miklu meiri í tölum hinna flokkanna, svo að skekkjan í heild verður svipuð með þeirri reikningsað- ferð.
Dagblaðið náði verulega góðum árangri í spánni um fylgi Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Skekkjan í útkomu Alþýðuflokksins reyndist ekki vera nema 1,6 prósentustig. Í stað hinna spáðu 15% gildra atkvæða fékk flokkurinn 13,4%.
Og í spá Dagblaðsins um fylgi Framsóknarflokksins reyndist skekkjan ekki vera nema 0,6 prósentustig. Í stað hinna spáðu 10% gildra atkvæða fékk flokkurinn 9,4%.
Skýringanna á hinni miklu skekkju Vísis kann sumpart að vera að leita í hinu nána sambandi blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Þau tengsli hefur almenningur í huga, þegar hann svarar spurningum blaðsins. Að öðru leyti ætti skekkjan að mestu leyti að felast í óhentugum vinnubrögðum blaðsins.
Dagblaðsmenn eru að sjálfsögðu ánægðir með að hafa svipaða skekkju og reynist vera í fínum 2.500 manna könnunum erlendis. Sú niðurstaða er blaðinu hvati þess að halda áfram á sömu braut.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið