Misráðin viðskipti

Greinar

Áður en viðreisnarstjórnin hóf göngu sína fyrir tæpum fimmtán árum, hafði lengi verið mikill skortur.á erlendum gjaldeyri í bönkunum. Þetta olli því, að Íslendingar höfðu ekki frjálst val um, hvaðan þeir keyptu vörur. Reynt var að beina viðskiptunum til svonefndra vöruskiptalanda, sem keyptu af okkur vörur í staðinn.

Þetta var tímabil mikilla viðskipta við Austur-Evrópu. Meðal annars var flutt inn töluvert af iðnaðarvörum, sem fljótt fengu á sig óorð. Menn kvörtuðu út af lélegum hráefnum í þessum vörum, lélegum frágangi og stuttum endingartíma. Enda voru Íslendingar mjög fegnir, þegar viðskiptin við aðra heimshluta voru gefin frjáls og almennilegar vörur streymdu inn í landið.

Menn muna enn vel eftir blómaskeiði innflutnings iðnaðarvara frá Austur-Evrópu og hafa almennt litla trú á endurnýjun slíkra viðskipta. Þess vegna vakti mikla athygli, þegar Magnús Kjartansson, iðnaðarráðherra vinstristjórnarinnar síðustu, lagði ofurkapp á, að tekið yrði tékknesku tilboði í ýmsan rafbúnað Lagarfossvirkjunar. Reyndir menn réðu frá því, minnugir fyrri reynslu. En pólitíkin varð ofan á og búnaðurinn var pantaður.

Tengivirki áttu að afhendast í apríl í vor sem leið. Þau eru ekki komin enn og virðast ekki vera komin í framleiðslu enn. Þótt smíði þeirra verði hafin nú þegar, er ljóst, að minnsta kosti eins árs seinkun verður á afhendingu þessa mikilvæga útbúnaðar. Og á meðan er ekki unnt að setja í gang orkuverið við Lagarfoss.

Þessi svik eru þegar orðin okkur gífurlega dýr. Sá kostnaður á eftir að margfaldast, þegar vetrarkuldarnir hefjast fyrir alvöru. Þá verður að skammta rafmagn á Austfjörðum og keyra á fullu allar olíuknúnar rafstöðvar landsfjórðungsins. Rafmagnsskömmtunin sjálf mun valda miklu tjóni. Og enn meira tjón mun hljótast af því, að Austfirðingar þurfa að notast við rándýra olíu í stað ódýrs vatnsafls Lagarfoss. Þetta tjón nemur að minnsta kosti mörgum tugum milljóna króna.

Úr þessu er nú orðið alvarlegt milliríkjamál. Svo virðist hafa verið gengið frá samningunum við skjólstæðinga Magnúsar Kjartanssonar, að engra skaðabóta er að vænta úr þeirri átt. Sérstök viðskiptasendinefnd hefur reynt að fá Tékka til að standa við samninginn. Og núverandi iðnaðarráðherra, Gunnar Thoroddsen, hefur skrifað persónulega til iðnaðarráðherra Tékkóslóvakíu til að fá hann til að ganga í málið. Vænta menn, að þessi þrýstingur valdi því, að framleiðsla tækjanna fari nú að hefjast eftir dúk og disk.

Við getum lært mikið af þessum óförum. Við eigum ekki að kaupa vandsmíðuð tæki og aðrar viðkvæmar vörur frá ríkjum, sem við höfum slæma reynslu af. Við eigum að beina viðskiptum okkar að fyrirtækjum, sem keppa á frjálsum markaði og hafa hingað til látið okkur hafa vandaðar vörur. Við eigum ekki að taka neina áhættu í innflutningi iðnaðarvara frá Austur-Evrópu. Þar eru fyrirtækin ríkisrekin og eru því langt frá því að vera næm fyrir þörfum markaðsins, hvort sem um er að ræða vörugæði, afhendingartíma eða önnur atriði viðskiptanna.

Einnig væri æskilegt, að opinber rannsókn yrði gerð á viðskiptunum við Tékka í sambandi við Lagarfossvirkjun.

Jónas Kristjánsson

Vísir