Misráðin embættisveiting

Greinar

Mikil voru mistök Ólafs Jóhannessonar dómsmálaráðherra að skipa Þór Vilhjálmsson prófessor sem dómara í Hæstarétt. Prófessorinn var þá og er enn aðili að einu umfangsmesta dómsmáli, sem rekið hefur verið á síðustu árum, meiðyrðamálunum út af illmælum Þjóðviljans um aðstandendur undirskriftasöfnunar Varins lands.

Nú er komið í ljós, er mál Varins lands eru tekin til meðferðar í Hæstarétti, að allir dómarar hans telja sig verða að víkja úr sæti vegna tengsla við hinn nýja dómara í réttinum. Kvaðningu fimm nýra manna í dóminn fylgir að sjálfsögðu gífurlegur kostnaður, sem leggst á skattborgarana.

Hins vegar er afstaða dómara Hæstaréttar bæði eðlileg og traustvekjandi. Enginn grunur má falla á Hæstarétt um áhrif mannlegra tengsla á úrskurði. Dómararnir virðast líka hafa valið hæfa menn í sinn stað. Enginn efast um, að þeir muni reynast réttsýnir í máli Varins lands.

Vekur þetta umhugsun um, hvort Hæstiréttur ætti ekki sjálfur, í stað dómsmálaráðherra, að velja fasta dómara í réttinn í sæti þeirra, sem hverfa frá fyrir aldurs sakir. Það mundi gera dómsvaldið minna háð framkvæmdavaldinu.

Því miður virðast dómsmálaráðherrar eins og aðrir ráðherrar líta á embætti dómara í Hæstarétti eins og önnur embætti, er verzla megi með í pólitískum helmingaskiptum og öðru slíku braski, sem virðist orðið landlægt hér á landi. Mikil siðbót yrði að afnámi þessa valds ráðherra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið