Gagnrýnin, sem nokkrir landsfeðra okkar hafa sætt vegna Jan Mayen málsins, er allt annars og miklu alvarlegra eðlis en sú gagnrýni, sem nokkrir landsfeður sættu á sínum tíma vegna viðræðna við Breta um 200 mílna efnahagslögsögu við Ísland.
Þá var útfærslan vel undirbúin eins og jafnan áður. Hinir hæfustu sérfræðingar höfðu lögskýrt réttarstöðu Íslendinga og varið hana á ráðstefnum. Hér heima efaðist enginn um, hver réttarstaðan væri. Nú hafa hins vegar jafnvel ráðherrar ruglazt í ríminu.
Þá höfðum við snjalla áróðursmenn í góðu sambandi við brezka fjölmiðla. Árangurinn varð sá, að stuðningur við málstað Íslands kom víða fram í blöðum og meðal brezks almennings. Þannig var grafið undan brezkum stjórnvöldum á heimavelli. Nú er hins vegar engum upplýsingum dreift til Noregs.
Þá var allt frumkvæði í málinu í höndum Íslendinga. Nú hefur hins vegar frumkvæðið verið í höndum Norðmanna. Þeir veifuðu marklausum hótunum, fyrst um hugsanlega loðnuveiði Rússa og síðan um eigin loðnuveiði. Við lá, að þeir tækju ríkisstjórn Íslands á taugum með leiftursókn.
Dagblaðið og ýmsir fleiri gagnrýndu á sínum tíma Geir Hallgrímsson, Einar Agústsson og Matthías Bjarnason, þáverandi ráðherra, fyrir að linast á síðustu stigum viðræðnanna við Breta. Mikill hvellur varð svo, þegar í ljós kom, að Geir gat hugsað sér að semja um framlengingar á undanþágum Breta.
Hvellurinn leiddi til nýs þróttar hinna íslenzku samningamanna. Eftir mikið þjark og læti tókst þeim að knýja fram samkomulag um, að undanþágur Breta rynnu út og yrðu ekki endurnýjaðar. Þessa niðurstöðu studdi Dagblaðið og raunar þjóðin öll.
Deilan við Norðmenn er hins vegar ekki komin á þetta stig. Hún er rétt að byrja. Samningamenn Íslands eiga enn ótal möguleika á að misstíga sig eða þreytast eða bera óhóflega virðingu fyrir mönnum, sem mæla á útlenzku. Við munum gagnrýna það, þegar þar að kemur.
Í þetta sinn hefur gagnrýni Dagblaðsins einkum beinzt að sjálfum grundvellinum. Allur málatilbúnaður okkar gagnvart Norðmönnum hefur hreinlega verið í rústum. Svo virðist meira að segja, að utanríkisráðherra hafi meira eða minna trúað orðum Norðmanna um réttarstöðu þeirra.
Vitleysan byrjaði raunar löngu fyrr, þegar 200 mílna efnahagslögsagan var ekki látin gilda í átt til Jan Mayen, ósjálfstæðrar eyju á landgrunni Íslands með engu efnahagslífi, engum fiskveiðum og mjög svo vafasömu eignatilkalli Norðmanna.
Þjóðin áttaði sig því miður ekki á málinu fyrr en allt í einu kom í ljós, að Norðmenn voru komnir langleiðina með utanríkisráðherra, sem var að þjarka um svokallað “grátt” svæði innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands!
Landsfeður okkar virðast hreinlega ekki hafa gert sér grein fyrir stöðu Jan Mayen og lagalegum hagsmunum Íslands við eyna. Sem betur fer hefur það runnið upp fyrir þeim núna.
Í kastljósinu situr svo Benedikt Gröndal utanríkisráðherra, sem kominn var á flugstig í samningum við Norðmenn um viðurkenníngu okkar á 200 mílum þeirra við Jan Mayen gegn viðurkenningu þeirra á 200 mílum okkar í átt til Jan Mayen! Frnmhlaup hans er okkur dýrt, þótt málinu hafi nú verið bjargað fyrir horn að sinni.
Í alvöruþjóðfélagi væri búið að setja Benedikt Gröndal af sem utanríkisráðherra.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið