Skipulagssýning Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum ber nokkur merki gagnrýninnar á svonefndar blikkbeljur, sem hefur verið í tízku á undanförnum árum. Sú gagnrýni ristir þó ekki dýpra en svo, að höfundar hennar stíga gjarnan upp í einkabíla sína að reiðilestri loknum.
Peningaleg rök eru fyrir því, að notkun strætisvagna eigi að aukast á kostnað notkunar einkabíla. Taprekstur strætisvagnanna felur líka í sér viðurkenningu borgaryfirvalda á því, að notkun þeirra sparar borginni gerð umferðarmannvirkja.
Ef skipulagsmenn telja svo, að þessi peningalegu rök skipti mestu máli, vaða þeir í villu og svima. Einkabíllinn er annað og meira en flutningatæki. Hann er sálrænn og félagslegur hluti nútímamannsins. Þetta meginatriði málsins verða menn að viðurkenna, þegar þeir skipuleggja borgir.
Þróunarstofnun Reykjavíkur treður bíleigendum ekki upp í strætisvagna með því að skera niður áætluð bílastæði í gamla miðbænum úr einu stæði á hverja 50 fermetra gólfflatar í eitt stæði á hverja 150 fermetra gólfflatar. Menn munu áfram þrjózkast um á einkabílum í umferðarteppunni, hvað sem yfirvöldin segja. Þetta er líka reynslan erlendis, þar sem ástandið er verra en hér.
Auðvitað verður að bæta strætisvagnakerfið og reka það áfram með tapi, þótt ekki sé nema fyrir börnin og gamla fólkið. En það er ófært, að skipulagsyfirvöld leggi á flótta undan blikkbeljugagnrýninni og taki að fækka bílastæðum. með slíku er einungis verið að skipuleggja umferðaröngþveiti í framtíðinni.
Auka þarf flutningsgetu Skúlagötu og Hringbrautar frá því, sem sýnt er á skipulagssýningunni, og reisa við Hverfisgötu nokkur bílageymsluhús, sem ekið sé inn í frá Skúlagötu. Þar með er hindrað, að umferðarþunginn frá Skúlagötu stífli hinar þröngu götur gamla miðbæjarins og spilli svip þeirra. Úr slíkum bílageymsluhúsum er svo unnt að hafa innangengt í yfirbyggða göngugötu framtíðarinnar á Laugavegi.
Aðrar breytingar umferðarmála á sýningunni eru yfirleitt til bóta, til dæmis fráhvarfið frá tengingu Túngötu við Grettisgötu. Það er ekki rétt að slíta gamla miðbæinn mikið í sundur með bílaumferð. Undantekningin er Lækjargatan, enda háttar landslagi þar svo, að þægilegt er að koma fyrir brúm fyrir gangandi fólk milli holts og kvosar.
Skipulag borga hefur löngum verið háð allskonar dellum og tízku . Blikkbeljugagnrýnin er þar í flokki . Hún tekur ekki tillit til sálrænna og félagslegra þarfa nútímamannsins, þótt hún lítil vel út á öðrum sviðum. Ef skipuleggjendur Reykjavíkur láta hugmyndafræði blikkbeljugagnrýnenda loka augum sínum fyrir heilbrigðri skynsemi, er voðinn vís. Þá kafnar gamli miðbærinn í umferðaröngþveiti.
Skipuleggjendur eiga að miða við fólk, eins og það er í raun og veru, en ekki við fólk, eins og það ætti að vera frá sjónarmiði blikkbeljugagnrýnenda. Um þetta geta skipuleggjendur sannfærzt með því að skoða einkabílaeign hinna reiðu manna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið