Myndazt hefur töluverður aðstöðumunur skattgreiðenda á Reykjavíkursvæðinu. Íbúar Reykjavíkur og Kópavogs greiða hærri gjöld til bæjarfélagsins en íbúar Seltjarnarness, Mosfellssveitar, Hafnarfjarðar og Garðabæjar gera.
Að undanförnu hefur verið deilt um, hverjar séu forsendur þessa. Meðal annars hefur verið rætt, hvort Reykjavík og Kópavogur veiti íbúum sínum meiri eða minni þjónustu en hin sveitarfélögin.
Slíkan mun er ekki auðvelt að sjá. Helzt er það Kópavogur, sem á við vandamál að stríða, þótt hann nýti álagningarheimildir til fulls. Hann er til dæmis bæjanna skemmst á veg kominn í gerð gatna og skóla.
Sumir svefnbæirnir á svæðinu veita betri þjónustu en Reykjavík á afmörkuðum sviðum. Seltjarnarnes hefur til dæmis náð mun lengra í smíði skóla, svo að einsett er þar í flestum árgöngum.
Einnig er deilt um, hvort nágrannabæirnir lifi á Reykjavík eða ekki. Ljóst er, að margir íbúarnir sækja atvinnu til Reykjavíkur. En á síðustu árum hefur aukizt flótti fyrirtækja frá Reykjavík.
Reykjavík sér um slökkvilið, strætisvagna, kalt og heitt vatn, svo og rafmagn fyrir Kópavog. Sumir telja nágrannasveitarfélögin komast of létt frá slíkum viðskiptum.
Seltjarnarnes greiðir sinn hlut af tapi á rekstri Strætisvagna Reykjavíkur. Öll sveitarfélögin á Reykjavíkursvæðinu greiða til fulls þjónustu frá borginni. Þau borga þar á ofan rafmagn til götulýsingar, sem Reykjavík gerir ekki.
Svefnbæirnir spara sér fjárfestingu með viðskiptum við Reykjavík, en greiða auðvitað fjárfestinguna smám saman í daglegum notkunargjöldum. Reykjavík hefur oft haft tímabundin óþægindi af fjárfestingu, en hefur síðan hagnazt á henni, þegar eignirnar hafa afskrifazt.
Litlum bæjum er mikils virði að geta sparað fjárfestingar á sumum sviðum. Það auðveldar þeim hliðstæðar aðgerðir á öðrum sviðum. En fyrir Reykjavík er líka hagkvæmt að dreifa rekstrarkostnaði ýmissar þjónustu á marga aðila.
Viðskipti svefnbæjanna við Reykjavík eru öllum málsaðilum til hagsbóta. Engin leið er að meta, hvor hagnist meira, Reykjavík eða nágrannabæirnir. Forsendur aðstöðumunarins eru ekki á þessu sviði.
Því hefur réttilega verið haldið fram, að í Garðabæ og á Seltjarnarnesi búi að meðaltali tekjuhærra fólk en í Reykjavík og þar af leiðandi betri skattgreiðendur. Góðir skattgreiðendur auðvelda bæjarfélögum að lækka gjöldin.
Ennfremur er rétt, að Reykjavík þarf í meira mæli en önnur sveitarfélög að sinna fólki, sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni, því að það hefur flykkzt í bæinn. Þangað hafa einnig flutzt gamalmenni og öryrkjar, sem lítil gjöld geta greitt.
Ekki er þessi tekjumunur eina skýringin. Þá gæti Kópavogur ekki síður en Hafnarfjörður haft lægri gjöldin. Kópavogur sleppur eins og Hafnarfjörður við hin sérstöku vandamál Reykjavíkur.
Til viðbótar tekjumun íbúanna koma svo stjórnmálin. Sjálfstæðisflokkurinn ræður ferðinni i bæjunum með lágu gjöldin og vinstri flokkarnir ráða ferðinni í Reykjavík og Kópavogi.
Þótt ekki hafi það sézt á ríkisstjórninni, sem fór frá völdum á síðasta ári, þá er almenna reglan sú, að hægri flokkar hneigjast að varðveizlu fjár en vinstri flokkar að eyðslu þess.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið