Minnt á menn

Greinar

Í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku minnti Benedikt Gröndal utanríkisráðherra á 30 ára afmæli mannréttindayfirlýsingarinnar, sem verður fyrir lok þessa þings. Hann sagði m.a.:

“Yfirlýsing þessi, sem gefin var svo skömmu á eftir stofnskránni sjálfri, er einn af stærstu áföngunum í starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Á sama hátt og borðorðin tíu í kristinni trú hefur hún verið og er enn leiðarljós margra. Hún hefur verið hræðslu- og áhyggjuefni þeirra, sem hafa gerzt brotlegir við hana, en því miður hafa allt of margir virt hana að vettugi.

Baráttan fyrir mannréttindum hefur harðnað og jafnframt hefur hún minnt okkur á allt það, sem ógert er. á þessu sviði.

Við vitum, að pyntingum er beitt á ýmsa vegu í tugum landa, sem aðilar eru að samtökum okkar. Við megum ekki láta baráttu linna fyrr en þessi blettur á mannkyninu hefur verið afmáður.

Við vitum, að þúsundum manna hefur verið varpað í fangelsi í fjölda landa af pólitískum ástæðum, vegna þátttöku þeirra í verkalýðssamtökum eða vegna trúarbragða, og þeim er haldið í fangelsi eða fangabúðum án þess að koma fyrir dómstól. Þetta er óþolandi ástand.

Við vitum, að kynþáttastefna og kynþáttamisrétti er ekki aðeins víða í framkvæmd heldur opinber stjórnarstefna í sumum löndum. Mikið hefur verið um ályktanir á allsherjarþinginu um kynþáttamisrétti, en fram að þessu hefur lítill árangur náðst.

Við vitum, að önnur mannréttindi, borgaraleg og pólitísk, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg, eru víða vanvirt. Í tilefni af afmæli mannréttindayfirlýsingarinnar skulum við enn herða sóknina á þessu sviði.

Án grundvallarmannréttinda er ekki um að ræða raunverulegt einstaklingsfrelsi og án einstaklingsfrelsis verður höfuðmarkmiðum stofnskrár Sameinuðu þjóðanna ekki náð.”

Nokkru síðar vísaði utanríkisráðherra til reynslu Íslands og sagði m.a.:

“Íslenzka þjóðin bjó lengi við nýlendustjórn. Við vitum af eigin reynslu, að frelsi og sjálfstæði valda ekki af sjálfu sér breytingum á aðstæðum og útrýma ekki þegar í stað fátækt. En á hinn bóginn vitum við, að sjálfstæði vekur þjóðerniskennd og gefur þjóðunum nýjan og áður dulinn styrk til framfara.

Ekki má færa völdin frá einni herrastétt til annarrar, né heldur mega nýjar myndir misréttis og óréttlætis koma í stað þess, sem áður var. Það er einungis með sjálfsaga, mannúð og menntun, sem kúguð þjóð getur aðlagast nýjum aðstæðum og nýrri framtíð.”

Hér fjallar Benedikt á athyglisverðan hátt um atriði, sem eru á oddinum í þriðja heiminum. Þar hafa örlög þjóða orðið æði misjöfn að fengnu frelsi. Því miður hefur meirihluti þeirra farið úr öskunni í eldinn, er risið hafa upp innlendir kúgarar, margfalt harðvítugri en hinir útlendu.

Sameinuðu þjóðirnar eru ekki beinlínis samtök þjóða, heldur ríkisstjórna. Sjónarmið hinna kúguðu einstaklinga eiga þar því ekki greiða leið. Þess vegna ber að fagna framtaki íslenzka utanríkisráðherrans, er hann gerir mannréttindi og einstaklingsfrelsi að sérstöku umtalsefni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið