Áður en Alþingi gekk endanlega frá fjárlögum hins nýbyrjaða árs komu fram nýjar spátölur frá Þjóðhagstofnuninni um þróun efnahagsmála á árinu. Í þeim tölum kemur fram, að veltan í þjóðarbúinu verði töluvert meiri í krónum talin en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þetta jafngildir því, að skatttekjur ríkisins yrðu töluvert meiri en reiknað var.með í upphaflega fjárlagafrumvarpinu.
Ríkisstjórn og alþingi brugðu á það ráð að hækka skattvísitöluna og miða við 51% tekjuaukningu manna í stað 45%. Þessi aðgerð gerir skattbyrði manna minni en ella hefði verið, og örlitlu minni en hún var í fyrra. Þá var skattbyrðin 16,6% af tekjum manna, en nú á hún að verða 6,5%, ef sveitarfélög innheimta útsvör með fullu álagi, en annars lægri.
Samt er gert ráð fyrir, að ríkið fái meiri tekjur en upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir. Því miður féllu þingmenn fyrir þeirri freistingu að verja þessu fé til margvíslegra þarfa, sem ekki var sáluhjálparatriði að uppfylla endilega á þessu ári. Æskilegra hefði verið að auka fremur greiðsluafgang ríkisins, enda fer vel á slíku, þegar mikil spenna er í efnahagslífinu.
Hjá sumum viðbótarútgjöldum frá upphaflega frumvarpinu varð þó ekki komizt. Sú breyting, að ríkissjóður fjármagni endurgreiðslu spariskírteina að fullu úr eigin vasa og ekki með útgáfu nýrra skírteina, var bráðnauðsynleg til að firra því, að ríkissjóður lenti þegar í upphafi í vítahring í skuldabréfaútgáfu sinni.
Einkum þó hafa ríkisstjórn og þingmenn orðið að taka tillit til þess, að viðskilnaður Magnúsar Kjartanssonar við orkumálin er miklu verri en menn töldu áður. Þetta hefur greinilega komið í ljós í sífelldu rafmagnsleysi og rafmagnsskömmtunum í stórum landshlutum og vaxandi keyrslu rándýrra olíurafstöðva. Hönnun og virkjun innlendra orkuvera dróst úr hömlu á valdatíma Magnúsar og peningum aftur á móti sóað í tilgangslitla raflínu á Norðurlandi.
Komið hefur í ljós, að ástandið í orkumálunum er orðið svo slæmt, að hin nýja ríkisstjórn á ekki annars úrkosti en halda áfram með Norðurlandslínuna suður, þótt það sé dýrasta lausnin á orkuskortinum. Það er einfaldlega ekki tími til að bíða eftir þeim virkjunum, sem verið er að undirbúa.
Þetta ástand hefur leitt til þess, að Alþingi hefur orðið að taka stóraukið tillit til orkuþróunarinnar í meðferð fjárlagafrumvarpsins. Hefur svigrúmið á þessu sviði verið aukið um nálega einn milljarð frá upphaflega frumvarpinu. Endurspeglar þetta vel þann forgang, sem orkumálunum er veittur og verður að veita.
Mikilvægasta vörnin fyrir hækkun fjárlaganna í meðförum alþingis er þó sú, að sú hækkun hindrar ekki, að ríkisgeirinn minnki í þjóðarbúskapnum. Í nokkur ár hefur það verið áhyggjuefni, hvernig ríkisgeirinn hefur magnazt á kostnað annarra geira þjóðarbúskaparins. Nú hefur þessu tafli verið snúið við, þrátt fyrir mikla hækkun fjárlaga í krónutölum. Í fyrra var hlutur ríkisins af þjóðarbúinu 29,1%, en fer samkvæmt fjárlögunum niður í 28% á þessu ári.
Þetta er spor í rétta átt og er væntanlega formáli að enn stærra skrefi að ári liðnu.
Jónas Kristjánsson
Vísir