Sérhæfing atvinnuhverfa og svefnhverfa eykur mjög umferðarálagið á götum Reykjavíkur. Mest er umferðin að og frá gamla miðbænum, vegna þess að þar eru mestir vinnustaðirnir og fæstir íbúarnir. Einnig veldur skipulag Breiðholts sem einangraðs svefnhverfis mikilli umferð þaðan til vinnustaða í öðrum hverfum, til dæmis í gamla miðbænum.
Skipulagssýning Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum sýnir, að Þróunarstofnun borgarinnar vill reyna að bæta úr þessu, einkum í gamla miðbænum, þar sem íbúum hefur á rúmum þremur áratugum fækkað úr 12.000 manns í 5.000 manns. Vill Þróunarstofnunin hætta við iðnað og vörugeymslur milli Hverfisgötu og Skúlagötu og reisa þar í staðinn þétta og lága íbúðabyggð. Með þessu á að fjölga íbúunum upp í 7.000 manns.
Þróunarstofnunin tekur þarna ekki nógu djúpt í árinni. Þessi aukning nægir varla til að létta neitt að ráði á umferðinni á morgnana niður í bæ og fyrir kvöldmat neðan úr bæ. Hví ekki stefna að fjölgun íbúa gamla miðbæjarins upp í 12.000 manns eins og áður var? Það má gera með því að reisa háhýsi íbúða á svæðinu milli Hverfisgötu og Skúlagötu og skipuleggja íbúðir ofan á verzlunar- og skrifstofuhúsum Laugavegsássins.
Leikvelli og auð svæði má skipuleggja á skýldum þökum hinna lægri húsa á þessu svæði. Einnig má reisa sérstök bílageymsluhús á nokkrum stöðum til að mæta hinni auknu landnýtingu, sem þessar hugmyndir mundu hafa í för með sér. Hvað er athugavert við að nýta gamla miðbæinn vel og gera hann iðandi af lífi kvölds sem morgna?
Skipulagssýningin ber þess merki, að enn hefur ekki verið ráðizt til atlögu gegn svefnhverfisböli Breiðholts. Þar er enn sýnd sama einhæfa íbúðabyggðin, þar sem börn og gamalmenni eiga að búa á daginn, meðan fyrirvinnur eru í bílalestum á leiðinni að og frá. Ekki bætir úr skák, hversu einangrað Breiðholt er frá öðrum hverfum, þar sem atvinnulífið er meira.
Reykjavík gæti kannski samið við Kópavog um, að hann stækkaði verulega atvinnuhverfi sitt vestan Reykjanesbrautarinnar fyrirhuguðu og skapaði þannig nærtæk atvinnutækifæri fyrir íbúa Breiðholts. Fyrirhuguð braut yfir Elliðaárnar til Ártúnshöfða mun einnig stytta leið margra Breiðholtsbúa til vinnu. Ennfremur þyrfti að athuga, hvort ekki sé unnt að skipuleggja svæðið austan Reykjanesbrautar á þann hátt, að það bjóði upp á meiri atvinnutækifæri. Og ekki er fráleitt, að inni í Breiðholti sjálfu sé enn unnt að skipuleggja atvinnuhúsnæði í stað íbúða.
Þessum hugmyndum er ætlað að hafa margvíslegt gagn í för með sér. Þær eiga til dæmis að draga úr því, að sum hverfi séu aðeins á lífi á daginn, en önnur á kvöldin og nóttunni. Þær eiga að gæða gamla miðbæinn meira lífi en tillögur SkipuIagsnefndar gera ráð fyrir. En fyrst og fremst eiga þær að draga úr þörfinni á umfangsmiklum og daglegum fólksflutningum milli hverfa í borginni. Nýjar hugmyndir á skipulagssýningunni beinast í rétta átt, en eru að þessu leyti ekki nógu djarfar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið